„Ekki edrú þegar þeir settu hana saman“

Gauti Þormóðsson.
Gauti Þormóðsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég er ánægður með varnarleikinn og markvörsluna, við vorum þéttir til baka og það var erfitt að skapa færi gegn okkur,“ sagði Gauti Þormóðsson, þjálfari Esju, eftir 4:1 sigur gegn Birninum í Hertz-deild karla í íshokkíi í gærkvöldi.

„Við sóttum af kænsku, við eigum til að sækja of mikið og erum að vinna í því að vera þéttari til baka. Það gekk vel í dag, við fáum bara á okkur eitt mark sem er hálfgerð óheppni, annars var Atli með allt á hreinu í markinu.“

Með sigrinum hefur Esja nú 13 stiga forskot á Björninn og liðið í góðri stöðu fyrir úrslitakeppnina en Gauti fer þó ekki fram úr sér enda nóg eftir af mótinu. 

„Við höfum spilað við þetta lið margoft og við vitum við hverju er að búast. Þeir eru vinnusamir, áræðnir og pressa mikið, maður þarf alltaf að spila við þá og eiga góðan leik, annars refsa þeir manni. Þetta er ekkert búið fyrir þá, þetta er lítil deild og þar af leiðandi eru margir sex stiga leikir í þessu. Við og Akureyri erum langt frá því að vera örugg í úrslitakeppnina, það er bara nóvember.“

Mikið hefur verið um meiðsli í herbúðum Esju og segir Gauti það ánægjulegt að hann sé hægt og rólega að endurheimta alla sína helstu leikmenn.

„Við eigum mikið inni, þetta er að fara í rétta átt. Menn eru að koma inn úr meiðslum, Jón Andri er að koma inn eftir að hafa verið frá í átta vikur, svo eigum við tvo landsliðsklassa sóknarmenn sem koma vonandi inn í janúar, jafnvel fyrr. Við erum ekki fullmannaðir en við náðum að spila vel í 60 mínútur, eða þangað til að þessi flautukonsert kom í lokin.“

Dómararnir voru í fullu starfi við það að reka menn út af á síðustu mínútunum en fjórir leikmenn fengu brottvísun á síðustu þremur mínútunum, þar af voru tveir þeirra reknir úr húsi.

„Ég held að það hafi bara verið eitthvað fyrir áhorfendurnar og svo fara dómararnir að dæma alltof mikið og menn voru að láta skapið aðeins fara í sig. Fyrir utan þessar mínútur var þetta mjög góður hokkíleikur held ég.“

Esja mætir toppliði SA á laugardaginn kemur en það munar einu stigi á þessum liðum sem stendur, skiptir það einhverju máli að vera í fyrsta sætinu?

„Engu í þessari deild, ef þú skoðar mótauppröðunina þá sérðu að þeir voru ekki edrú þegar þeir settu hana saman. Það er ekki spilað í umferðum og það er ómögulegt að segja, eitt lið spilar þrjá leiki á Akureyri þar sem er erfitt að fá stig og svo áttu kannski botnliðið eftir. Við erum ekkert að spá í þessa töflu, við hugsum bara um að spila góðan leik; ef þú gerir það, þá koma stigin,“ sagði Gauti að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert