Spila upp á sæti í liðinu

Heimir Hallgrímsson, Lars Lagerbäck
Heimir Hallgrímsson, Lars Lagerbäck mbl.is/Golli

„Ég held að leikmennirnir geri sér allir grein fyrir því að þeir eru líka að fara að spila upp á sæti í byrjunarliðinu í leik á stórmóti. Þess vegna held ég að allir vilji standa sig vel í þessum leik,“ sagði Heimir Hallgrímsson, annar þjálfara karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu, fyrir vináttulandsleikinn við Noreg í Ósló sem hefst kl. 18 í kvöld. Þetta er fyrri leikur Íslands af tveimur áður en EM hefst, þar sem Ísland mætir Portúgal 14. júní.

Heimir segir ljóst að gefa þurfi hluta leikmanna hvíld í dag, en þeir sem spila með liðum á Norðurlöndum voru margir hverjir að spila nú um helgina. Þjálfarinn segir ákveðið að Hannes Þór Halldórsson markvörður og miðvörðurinn Kári Árnason taki engan þátt í leiknum.

„Þessi leikur er fyrst og fremst hugsaður fyrir þá sem hafa minna spilað að undanförnu. Það er langt síðan sumir hérna spiluðu fótboltaleik síðast og við þurfum að keyra þá aðeins í gang. Hins vegar hefur verið talsvert mikið álag á þeim leikmönnum sem spila í Skandinavíu síðustu tvær vikur og nokkrir hafa spilað fimm leiki á þeim tíma og þeir þurfa líkamlega og andlega hvíld til að hlaða sig upp aftur. Leikirnir eru ekki beint hugsaðir fyrir þá, en við erum ekki með það stóran hóp að við þurfum að nota einhverja þeirra. Tilgangurinn með þessum undirbúningi er að allir séu tilbúnir þegar við förum til Frakklands,“ sagði Heimir, sem stefnir á að láta Aron Einar Gunnarsson og Kolbein Sigþórsson leika í dag, en báðir hafa glímt við meiðsli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert