Góð vörn lykillinn að sigri

Helgi Rafn Viggósson.
Helgi Rafn Viggósson. mbl.is/Golli

Helgi Rafn Viggósson leikmaður Tindastóls var að vonum ánægður eftir sigurinn gegn Stjörnunni í Dominos-deildinni í körfuknattleik í kvöld og sagði að gríðarlega öflug liðsheild hafi skapað góðan sigur. 

„Við erum bara lið sem sýndi í kvöld að við ætlum okkur langt, og þetta náðist þrátt fyrir að þrír af stóru mönnunum okkar væru ekki með í kvöld, þeir Svavar, Kris og Pálmi. Það voru allir í liðinu að sýna toppleik, bekkurinn kom svakalega vel stemmdur inn á og skilaði sínu og meiru til, við vitum að góð vörn er lykill að sigri og við vorum ákveðnir í því að vörnin mundi vinna þetta með og fyrir okkur. Það er beinlínis stórkostlegt að halda jafnmiklu og sterku sóknarliði eins og Stjörnunni undir 70 stigum.

Svo auðvitað kom það enn og aftur í ljós að þessi heimavöllur er algjört síki og áhorfendurnir þeir langbestu og öflugustu á landinu,“ sagði Helgi Rafn við mbl.is eftir leikinn.

Svavar A. Birgisson, sem var utan vallar, sagði að það hefði verið verulega miklu auðveldara að vera ekki með, þegar ljóst var að sú staða var komin upp að Tindastólsmenn hefðu verið búnir, um miðjan þriðja hluta, að skella öllu í lás og henda lyklunum. „Þetta var rosalegur sigur liðsheildarinnar, áreiðanlega langbesti varnarleikur liðsins í vetur. Þegar menn gerðu sér grein fyrir þessu varð eftirleikurinn auðveldari eins og alltaf og stigin fóru að tikka inn,“ sagði Svavar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert