Mögnuð karfa frá Andre Iguodala í blálokin tryggði Philadelphia 76ers óvæntan útisigur á Orlando Magic, 100:98, í fyrstu viðureign liðanna í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik, sem lauk í Orlando um miðnættið.
Fæstir áttu von á sigri 76ers, og hvað þá eftir að liðið lenti 18 stigum undir í leiknum í kvöld. Leikmenn Orlando voru komnir í 79:61 en 76ers jöfnuðu, 91:91, tæpum fjórum mínútum fyrir leikslok. Orlando náði forystsu, 98:95, þegar 49 sekúndur voru eftir en Donyell Marshall jafnaði með 3ja stiga skoti, 98:98. Það var svo Igoudala sem var hetja liðsins í lokin þegar hann skoraði með skoti rétt innan 3ja stiga línunnar og óvæntur sigur var í höfn.
Igoudala gerði 20 stig í leiknum, tók 8 fráköst og átti 8 stoðsendingar, og þá gerði Louis Williams 18 stig fyrir 76ers í fyrsta sigri liðsins á Orlando á þessu keppnistímabili.
Dwight Howard skoraði 31 stig fyrir Orlando, persónulegt met hjá honum í úrslitakeppni, og hann tók 16 fráköst. Þá skoraði nýliðinn Courtney Lee 18 stig fyrir Orlando.
Liðin mætast öðru sinni í Orlando seint á miðvikudagskvöld.