Stórsigrar hjá Denver og Atlanta

Kenyon Martin hjá Denver brýtur á David West hjá New …
Kenyon Martin hjá Denver brýtur á David West hjá New Orleans í leik liðanna í nótt. Reuters

Leikirnir tveir sem fram fóru í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt voru ekki sérlega jafnir. Atlanta Hawks burstaði Miami Heat, 90:64, og Denver Nuggets vann enn stærri sigur á New Orleans Hornets, 113:84.

Um miðnættið vann Philadelphia 76ers óvæntan útisigur á Orlando Magic, 100:98, eins og áður hefur komið fram.

Frábær annar leikhluti hjá Atlanta gerði útslagið gegn Miami en þá breytti liðið stöðunni úr 24:21 í 59:39. Lið Miami gerði síðan aðeins 25 stig í seinni hálfleiknum og Atlanta jafnaði félagsmet sitt í úrslitakeppni NBA með því að fá einungis 64 stig á sig. Miami hafði áður skorað minnst 68 stig í leik á þessu tímabili og Dwyane Wade, aðalstjarna liðsins, var í gjörgæslu og skoraði "aðeins" 19 stig en hann gerði að jafnaði 30 stig í leik í deildakeppninni í vetur.

Josh Smith var stigahæstur hjá Atlanta með 23 stig. „Þegar mikið af skotum mistekst, eins og gerðist hjá okkur í kvöld, gerast hlutirnir hratt. Josh Smith náði að troða hvað eftir annað í hraðaupphlaupum og það gerði stemmninguna í húsinu enn rafmagnaðri," sagði Dwyane Wade við fréttamenn eftir leikinn.

Í Denver var um jafnari viðureign að ræða framan af og heimamenn aðeins með 55:47 forystu í hálfleik. Þeir náðu 18 stiga forskoti í þriðja leikhluta og þá var björninn unninn gegn New Orleans en 34 stig skildu liðin að um tíma í fjórða leikhluta.

Chauncey Billups átti stórleik með Denver en hann skoraði 36 stig og skoraði 8 þriggja stiga körfur í fyrsta skipti á ferlinum. „Það gekk bara allt upp, þetta var ein af þessum sérstöku stundum. Mann langar til að endurtaka þennan leik, en það verður varla hægt," sagði Billups eftir leikinn.

Chris Paul skoraði 21 stig fyrir New Orleans og átti 11 stoðsendingar. „Það eina jákvæða er að við töpuðum með 29 stigum en erum samt bara 1:0 undir," sagði Paul.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert