NBA: Houston skellti Lakers og jafnaði metin

Kobe Bryant er hér umkringdur leikmönnum Houston og má ekki …
Kobe Bryant er hér umkringdur leikmönnum Houston og má ekki fyrir margnum. Reuters

Houston jafnaði metin í 3:3 gegn Los Angeles Lakers þegar liðin áttust við í sjötta sinn í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik í Houston í nótt. Heimamenn fögnuðu 15 stiga sigri, 90:75, í undanúrslitum Vesturdeildarinnar og mætast liðin í oddaleik í Los Angeles á sunnudaginn.

Aaron Brooks var stigahæstur í liði Houston með 26 stig og Luis Scola átti sinn besta leik á ferlinum, skoraði 24 stig og tók 12 fráköst. Leikmenn Houston tóku sig svo sannarlega saman í andlitinu eftir skellinn sem þeir fengu í fimmta leiknum en þá töpuðu þeir með 30 stiga mun sem er stærsti skellur í sögu úrslitakeppninnar. 

,,Síðustu tvo dagana þá höfum allir heyrt að fólk ræddi um að við færum ekki aftur til Los Angeles en leikmenn mínir trúðu því ekki. Ég var ekki viss um við myndum vinna leikinn en ég vissi að mínir menn myndu leika af mikilli ákefð og selja sig dýrt og það kom á daginn,“ sagði Rick Adelman þjálfari Houston eftir leikinn.

Kobe Bryant var stigahæstur í liði Lakers með 32 stig en hann hitti úr 11 af 27 skotum sínum í leiknum. Pau Gasol skoraði 14 stig og Jordan Farmar 13. Lakers hóf leikinn afar illa. Það hitti ekki úr 8 fyrstu skotum sínum og heimamenn komust í 17:1 og eftir það var á brattann að sækja fyrir leikmenn Lakers.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka