Kobe Bryant setti persónulegt stigamet í fyrsta leik lokaúrslita NBA deildarinnar gegn Orlando Magic hér í Staples Center í nótt. Kappinn tók leikinn í sínar hendur um miðjan annan leikhlutann og skoraði þá tólf af átján stigum sínum í fyrri hálfleiknum. Á þessum kafla fór Lakers úr því að vera fimm stigum undir í að ná fjórtán stiga forystu. Þeirri forystu náði Orlando aldrei að ógna í seinni hálfleiknum og Lakers innbyrti auðveldan sigur í lokin, 100:75.
Það er ávallt mikil eftirvænting og góð stemming á lokaúrslitaleikjum hér í Staples Center, enda ávallt mikið í húfi. Maður sér meiri orku og ákefð eftir því sem líður á úrslitakeppnina og þegar í lokaúrslitin kemur eru venjulega tvö lið í toppformi. Leikur liðanna var jafn lungann af fyrri hálfleiknum en þá tók Bryant tökin á leiknum og með góðum varnarleik náði Lakers yfirhöndinni í leiknum sem hélst út leikinn.
Orlando mætti vel stemmt og virtist ætla að gera heimamönnum lífið leitt með mikilli leikgleði, en á fyrrnefndum leikkafla seinnipart fyrri hálfleiks riðlaðist leikur liðsins. Í sókninni misstu leikmenn upplögð skottækifæri og í vörninni réðu þeir ekkert við Bryant.
Bryant var allt í öllu hjá Lakers með 40 stig, átta fráköst og átta stoðsendingar. Hann fór sannarlega á kostum allan leikin, og atorka hans og leikgleði smitaði út frá sér.
„Ég var staðráðinn í að við yrðum að sýna mikla ákveðni í leik okkar frá byrjun til enda og það var mín ábyrgð sína frumkvæðið hvað það varðar. Varnarleikur okkar var lykilatriði í kvöld. Við náðum að setja góða pressu á þá úti á vellinum og stóru mönnunum okkar gekk vel að hemja Howard inni í teignum."
Þótt Bryant eigi vissulega hrós skilið fyrir sinn leik, má ekki gleyma að þeir Pau Gasol og Andrew Bynum gerðu báðir vel í að halda miðherjaskrímslinu Dwight Howard hjá Orlando í skefjum. Howard náði aldrei að athafna sig með boltann inni í teignum og við það riðlast sóknarleikur Orlando. Liðið byggir á því að koma Howard inn í sóknarleikinn með því að dæla knettinum til hans og vona að hann skori sem mest. Við það opnast sóknarleikur Magic, en miðherjar Lakers leyfðu honum aldrei að komast í gang.
Gasol var annar lykilleikmaður Lakers með sextán stig og átta fráköst. Howard skoraði aðeins úr einu af sex skotum sínum, en setti niður tíu víti. Hann skoraði aðeins tólf stig og það mun alls ekki duga í framtíðinni fyrir Orlando.
„Við áttum afleitan leik í kvöld. Við misstum fullt af skotum sem venjulega fara niður og af einhverjum ástæðum vantaði líka allan baráttukraftinn hjá okkur. Við eigum örugglega ekki eftir að leika eins illa það sem eftir er í leikseríunni," sagði Howard við blaðmenn eftir leik.
Orlando þarf að svara fyrir sig
Allt gekk upp hjá Lakers í þessum leik og stóra spurningamerkið er nú hvort liðið getur fylgt þessu eftir með öðrum sigri í leik númer tvö á sunnudag. Phil Jackson, þjálfari Lakers var ánægður með sína menn í leikslok á blaðamannafundi hér í kjallara Staples Center.
„Kobe mætti með keppnisskapið í lagi í kvöld. Mér fannst við reiða okkur of mikið á hann í sóknarleiknum á köflum, en hann sagði við okkur í leikhléum ´Haldið áfram að finna mig með boltann,´ svo það var sem við gerðum. Ég held hinsvegar að Orlando eigi eftir að leika mun betur á sunnudag. Þeir nýttu ekki skot allan leikinn sem þeir venjulega skora úr."
Skothittni Magic var aðeins 30%, en það mun ekki duga gegn öguðu liði Lakers í þessari leikseríu. Liðið mun eflaust hitta betur í öðrum leik liðanna, en Stan Van Gundy, þjálfari Magic, mun þurfa að finna leið til að koma Howard meira inn í sóknarleikinn.
„Við kíkjum á vídeó af leiknum og reynum að finna leið að brjóta betur niður varnarleik Lakers," sagði hann í leikslok. Til að gefa mynd af því hvað Orlando stendur nú frammi fyrir í leikseríunni, þá hafa lið þjálfuð af Phil Jackson unnið allar 43 leikseríur þegar lið hans vinnur fyrsta leikinn!