Grétar: Vorum hriplekir

Grétar Ingi Erlendsson, leikmaður Þórs, sagði slakan varnarleik hafa orðið liðinu að falli í fyrstu viðureign þess við Grindavík um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik í Grindavík í kvöld.

„Við vorum lengi vel hriplekir í vörninni og það varð okkur að falli að þessu sinni," sagði Grétar. „Þegar við loksins tókum við okkur þá var munurinn orðinn of mikill. Við vöknuðum of seint,“ sagði Grétar.

„Við þurfum að skerpa á varnarleik okkar fyrir næstu viðureign. Ef varnarleikurinn er í lagi hjá okkur hef ég ekki áhyggjur af öðru," segir Grétar sem á von á slagsmálum í næstu viðureign liðanna sem fram fer í Þorlákshöfn.

„Þeir vilja slást við okkur og þá verðum við að vera tilbúnir að mæta þeim og við verðum það," sagði Grétar Ingi Erlendsson, leikmaður Þórs frá Þorlákshöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert