Kemst Grindavík eða Njarðvík í úrslitin?

Njarðvíkingar og Grindvíkignar eigast við.
Njarðvíkingar og Grindvíkignar eigast við. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Það ræðst í kvöld hvort það verða Íslandsmeistarar Grindavíkur eða Njarðvík sem mæta deildarmeisturum KR í úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik þetta árið.

Suðurnesjaliðin eigast við í oddaleik í Röstinni í Grindavík klukkan 19.15 í kvöld. Staðan í einvígi liðanna í undanúrslitum er 2:2 en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitin gegn KR, sem sló Stjörnuna út í hinu undanúrslitaeinvíginu, 3:1.

Grindavík er handhafi bæði Íslands- og bikarmeistaratitlanna í meistaraflokki karla og metnaðurinn þar á bæ stendur ekki til nokkurs annars en að verja Íslandsmeistaratitilinn. Að sama skapi ætla Njarðvíkingar sér þó líka stóra hluti. Þeir vilja kveðja Einar Árna Jóhannsson þjálfara sinn með viðeigandi hætti. Einar Árni lætur af störfum sem þjálfari meistaraflokks í lok leiktíðar og útlit fyrir að Friðrik Ingi Rúnarsson taki við af honum, en viðræður milli Njarðvíkur og Friðriks Inga eru langt á veg komnar.

Þá er Elvar Már Friðriksson leikstjórnandi Njarðvíkur á leið til Bandaríkjanna eftir þessa leiktíð. Elvar hefur leikið frábærlega með Njarðvík síðustu tvær leiktíðir og hefur ekki í hyggju að ljúka þessu tímabili með tapi í Grindavík.

Njarðvík hefur þrettán sinnum orðið Íslandsmeistari, síðast árið 2006. Grindavík hefur þrisvar orðið meistari, þar af síðustu tvö ár. KR-ingar, sem þegar eru komnir í úrslit, hafa fagnað stóra titlinum tólf sinnum, síðast árið 2011. thorkell@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert