Sverrir: Hittum á toppleik

„Við hittum náttúrulega bara á toppleik í kvöld. Menn voru klárir í slaginn strax frá fyrstu mínútu. Vörnin var góð hjá okkur, menn voru grimmir og alltaf á tánum. Við hittum líka vel úr skotunum okkar og samvinna leikmanna var fín,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindavíkur eftir að liðið sigraði Njarðvík í kvöld, 120:95 í oddaleik undanúrslita Íslandsmóts karla í körfuknattleik. Grindavík komst með sigrinum í úrslit og mætir þar KR.

Varnarleikur Grindavíkur var eftirtektarverður í leiknum í kvöld. Grindvíkingar léku fasta og öfluga vörn ekki síst í fyrri hálfleik. „Það var frábært að fá svona góða vörn. Ekki síst frá Jóni Axel [Guðmundssyni]. Hann var algjörlega magnaður og Njarðvíkingar voru í tómi tjónu að stilla up sókn gegn honum. Þetta er bara flott og stutt í næsta fjör,“ sagði Sverrir í viðtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

Viðtalið við Sverri má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. Þar ræðir hann meðal annars um andstæðinga Grindavíkur í úrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert