Fyrsti úrslitaleikur KR og Grindavíkur

Brynjar Þór Björnsson og Jón Axel Guðmundsson eigast við í …
Brynjar Þór Björnsson og Jón Axel Guðmundsson eigast við í leik KR og Grindavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Einvígi KR og Grindavíkur um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik hefst í kvöld en klukkan 19.15 verður flautað til fyrsta leiks liðanna í DHL-höllinni í Vesturbænum.

Grindvíkingar eru handhafar beggja stóru titlanna en þeir hafa orðið Íslandsmeistarar undanfarin tvö ár og urðu bikarmeistarar fyrr í vetur.

KR vann hinsvegar úrvalsdeildina í vetur með nokkrum yfirburðum en Vesturbæingarnir unnu 21 leik af 22. Grindvíkingar enduðu í þriðja sætinu.

KR vann Snæfell, 3:0, í átta liða úrslitunum og Grindavík vann Þór frá Þorlákshöfn, 3:1. KR-ingar sigruðu Stjörnuna, 3:1, í undanúrslitum en Grindvíkingar lögðu Njarðvíkinga í oddaleik og einvígið 3:2.

Grindvíkingar hafa því þurft að fara í gegnum níu leiki til að komast í úrslitin á meðan KR-ingum nægðu sjö leikir.

KR vann Grindavík örugglega, 94:74, á útivelli í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar í október. Grindvíkingar hefndu fyrir það með því að sigra, 105:98, í Vesturbænum í janúar og það var eini tapleikur KR í deildinni í vetur. Sá sigur var upphafið að frábærri seinni umferð hjá Grindvíkingum en þeir unnu þar tíu leiki af ellefu, alveg eins og KR-ingar.

Það fer því ekki á milli mála að í þessu einvígi eigast við þau tvö lið sem hafa verið sterkust hér á landi það sem af er þessu ári og mikið uppgjör í vændum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert