Indiana og Oklahoma komin í vandræði

Blake Griffin er í miklu stuði með LA Clippers og …
Blake Griffin er í miklu stuði með LA Clippers og hér skýtur hann yfir Jermaine O'Neal hjá Golden State í leik liðanna í nótt. AFP

Indiana Pacers og Oklahoma City Thunder, sem voru tvö af bestu liðum NBA-deildarinnar í körfubolta í vetur, standa bæði höllum fæti í einvígjum sínum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar eftir ósigra í nótt.

Staða Indiana er sérstaklega óvænt en liðið sem vann Austurdeildina er nú 2:1 undir gegn Atlanta Hawks, liðinu sem skreið inní úrslitakeppnina með lakasta árangurinn og var fyrirfram talið það lið sem ætti ekkert erindi þangað. Atlanta vann sannfærandi sigur á heimavelli í nótt, 98:85, og er með undirtökin í einvíginu en næsti leikur er líka í Atlanta.

Jeff Teague skoraði 22 stig fyrir Atlanta, 15 þeirra í seinni hálfleik, og Kyle Korver 20. Lance Stephenson skoraði 21 stig fyrir Indiana og tók 13 fráköst og Paul George skoraði 12 og tók 14 fráköst.

Memphis komst í 2:1 gegn Oklahoma eftir framlengingu. Staðan var 85:85 eftir venjulegan leiktíma en Memphins knúði fram sigur, 98:95, og er aftur á heimavelli í fjórða leiknum.

Mike Conley skoraði 20 stig fyrir Memphis, Zach Randolph og Tony Allen 16 hvor. Þeir Kevin Durant og Russell Westbrook skoruðu 30 stig hvor fyrir Oklahoma en vantaði meiri aðstoð frá félögum sínum.

LA Clippers komst hinsvegar í 2:1 gegn Golden State Warriors með góðum útisigri á vesturströndinni, 98:96, og er búið að snúa einvíginu sér í hag eftir tap á heimavelli í fyrsta leiknum.

Blake Griffin var í miklum ham með Clippers eins og í fyrstu tveimur leikjunum og nú skoraði hann 32 stig. DeAndre Jordan tók 22 fráköst og Chris Paul skoraði 15 stig, átta þeirra á síðustu þremur mínútunum.

Klay Thompson skoraði 26 stig fyrir Golden State og Stephen Curry skoraði 16 stig og átti 15 stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert