Scott stýrir Lakers

Byron Scott er tekinn við L.A. Lakers.
Byron Scott er tekinn við L.A. Lakers. AFP

Bandaríska körfuboltaliðið, Los Angeles Lakers í NBA-deildinni vestanhafs hefur ráðið Byron Scott sem nýjan þjálfara liðsins. Scott tekur við liðinu af Mike D'Antoni og gerir fjögurra ára samning við Lakers.

Scotts bíður ærið verkefni að endurreisa Lakers eftir mikið vonbrigðatímabil, þar sem liðið vann aðeins 27 leiki en tapaði 55 leikjum síðasta vetur.

Byron Scott þekkir ágætlega til hjá Lakers, því hann lék með félaginu 1983-1993 og vann NBA-meistaratitilinn þrívegis með liðinu, 1985, 1987 og 1988.

Scott þjálfaði síðast Cleveland Cavaliers frá 2010-2013 en stýrði áður New Orleans Hornets 2004-2009 og New Jersey Nets 2000-2004.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert