Logi stigahæstur í sínum 100. landsleik

Landsliðið í Lúxemborg.
Landsliðið í Lúxemborg. Ljósmynd/KKÍ

Íslenska landsliðið í körfuknattleik sigraði Lúxemborg 78:64 í æfingaleik liðanna í Lúxemborg rétt í þessu. Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson sem lék sinn 100 landsleik fyrir Íslands hönd var stigahæstur leikmanna Íslands með 19 stig. Íslenska liðið leikur aftur við Lúxemborg á laugardag kl. 16.00 að íslenskum tíma en leikirnir eru liður í undirbúningi íslenska liðsins fyrir undankeppni Evrópukeppninnar, Euro Basket, sem fram fer í ágúst. 

Íslenska liðið var allan tímann sterkara í leiknum og leiddi eftir fyrsta leikhluta 18:14. Þeir Pavel Ermolinskij, Hörður Axel Vilhjálmsson, Haukur Helgi Pálsson, Logi Gunnarsson og Hlynur Bæringsson hófu leik íslenska liðsins.

Íslenska liðið jók forskot sitt í 2. leikhluta en staðan var 37:30 í hálfleik. Mest varð forusta Íslands 12 stig. Eftir 3. leikhluta var forskot Íslands orðið þrettán stig, 61:48 og fátt sem benti til þess að lið Lúxemborgar myndi gera íslenska liðinu grikk í síðasta leikhlutanum. 

Íslenska liðið gerði engin mistök og kláraði síðasta leikhlutann með sóma og sannfærandi 78:64 liðsins í höfn.

Logi Gunnarsson lék frábærlega í sínum 100. landsleik.
Logi Gunnarsson lék frábærlega í sínum 100. landsleik. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert