Ragnar: Þarf mikið til að skaða sjálfstraustið

Landsliðsmaðurinn Ragnar Nathanaelsson sagðist klár í slaginn í leikinn mikilvæga gegn Bretum í undankeppni Evrópukeppninnar annað kvöld þegar mbl.is tók hann tali að lokinni æfingu í Koparboxinu í kvöld, keppnishöllinni þar sem leikurinn fer fram.

„Mér líst mjög vel á þetta. Sætin eru litrík og skemmtileg og höllin líka svo þetta lítur vel út. Körfuboltinn er ekkert það vinsæll hérna í Bretlandi en það verður stemning, ég trúi ekki öðru,“ sagði Ragnar, en íslenska liðið lagði það breska fyrr í mánuðinum og ætlar að endurtaka leikinn.

„Við ætlum að koma til leiks eins og gegn þeim síðast þegar við spiluðum mjög vel. Okkur leið aldrei illa á móti þeim þá og við eigum að taka þennan leik. Við erum vel stemmdir í þetta,“ sagði Ragnar og sagði sjálfstraustið í botni hjá liðinu.

„Heldur betur, það þarf mikið til að skaða sjálfstraustið í mér svo ég er góður,“ sagði Ragnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert