„Höldum ekki aftur af neinu gegn Bretum“

Craig Pedersen ræðir við íslenska landsliðið á æfingu í Koparkassanum …
Craig Pedersen ræðir við íslenska landsliðið á æfingu í Koparkassanum í Lundúnum í gærkvöldi. Ljósmynd/Andri Yrkill Valsson

„Markmið okkar hefur verið frá byrjun að skapa góð skotfæri og við höfum gert það í öllum leikjunum, meira að segja gegn frábæru liði Bosníu. Ísland er þekkt fyrir að eiga marga góða skotmenn og vonandi munum við skapa nógu mörg skotfæri fyrir okkur til að vinna,“ sagði Craig Pedersen, landsliðsþjálfari í körfuknattleik, í samtali við mbl.is fyrir leikinn gegn Bretlandi í undankeppni Evrópukeppninnar sem fram fer í Lundúnum í kvöld.

„Arnar [Guðjónsson] aðstoðarþjálfari sagði mér að ef við kæmumst í lokakeppnina værum við fámennasta þjóðin sem það hefur gert, sem væri frábært. En það er stórt fyrir hvaða þjóð sem er að komast áfram og er mjög spennandi. Við verðum að njóta þessarar stunda og kýla á þetta,“ sagði Pedersen, en með sigri í kvöld tryggir Ísland nánast sæti sitt í lokakeppninni í fyrsta sinn.

Ísland lagði Breta í Laugardalshöllinni fyrir rúmri viku og Pedersen á ekki von á miklum breytingum frá þeim.

„Þeir spila frekar svipað í flestum leikjum sínum og munu ekki breyta það miklu. Ef þeir finna upp á einhverju sem kemur okkur á óvart þurfum við bara að finna út úr því á meðan á leik stendur,“ sagði Pedersen.

„Sennilega besti íþróttamaður sem ég hef unnið með“

Jón Arnór Stefánsson var ekki með í fyrri tveimur leikjum liðsins en hann tekur slaginn með liðinu í kvöld. Pedersen er gríðarlega ánægður með þá ákvörðun.

„Það gefur okkur í fyrsta lagi meiri breidd. Hann er frábær íþróttamaður, sennilega sá besti sem ég hef unnið með. Hann er ekki bara að skapa færi fyrir sig heldur einnig liðsfélaga sína,“ sagði Pedersen, en markmiðið er skýrt fyrir leikinn.

„Við ætlum að kýla á þetta og ekki halda aftur af neinu. Liðið er klárt og þetta verður mjög spennandi.“

Leikur Bretlands og Íslands verður í beinni textalýsingu frá Koparkassanum í Lundúnum í kvöld.

"Sennilega besti íþróttamaður sem ég hef unnið með," segir Pedersen um Jón Arnór Stefánsson. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert