Hörður Axel: Tilfinningin aldrei svona góð

Hörður Axel Vilhjálmsson var himinsæll en jarðbundinn þegar mbl.is tók hann tali skömmu eftir sigur Íslands á Bretum í Koparkassanum í Lundúnum, 71:69. Sigurinn fleytir liðinu langleiðina í lokakeppni Evrópukeppninnar. Hann segir tilfinninguna skiljanlega góða.

„Hún er svakalega góð, ég hef ekki fengið svona góða tilfinningu eftir körfuboltaleik áður. Þetta er eitthvað sem manni hafði ekki einu sinni dreymt um að við séum nánast búnir að tryggja okkur inn á Evrópumótið,“ sagði Hörður.

Leikurinn var sem kunnugt er gríðarlega mikilvægur en Hörður segir liðið hafa haldið sama undirbúningi. „Við reyndum að halda okkur við okkar leikplan enda hefur það virkað vel. En við vorum samt meðvitaðir um hvað þetta var stór leikur og sigurinn mikilvægur. Við byrjuðum líka þannig, smá taugaveiklaðir, en svo unnum við úr því,“ sagði Hörður.

Ísland hefur aldrei komist í lokakeppni EM og sigurinn hefur því gríðarlega þýðingu fyrir íslenskan körfubolta.

„Maður er ekki búinn að hugsa svo langt. Þetta er allavega æðislegt eins og er og gerir rosalega mikið fyrir liðið og erum að uppskera eftir alla vinnuna sem við höfum lagt í,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson í samtali við mbl.is, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert