Í þeirra höndum að skrifa söguna

Strákarnir okkar verða vonandi klárir í slaginn í kvöld.
Strákarnir okkar verða vonandi klárir í slaginn í kvöld. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Ég er löngu búinn að missa töluna á því hversu oft ég hef heyrt að leikur Bretlands og Íslands í kvöld sé sá stærsti í körfuboltasögu þjóðarinnar. Það er hins vegar ekki vanþörf á að minnast allavega einu sinni enn á þá staðreynd, enda sæti í lokakeppni Evrópumótsins aldrei verið svo nærri.

Liðin mætast í kvöld í Koparkassanum hér í Lundúnum, glæsilegri keppnishöll sem lætur þó lítið fyrir sér fara. Reiknað er með allt að fimm þúsund áhorfendum á leikinn, sem mun líklega ráða úrslitum um hvort þessara liða getur komist í lokakeppnina. Að öllum líkindum þá í gegnum góða stöðu í öðru sæti riðilsins, en sex af sjö liðum í öðru sæti riðlanna komast áfram. Vinni Ísland leikinn er björninn nánast unninn og enn möguleiki á efsta sætinu.

Stemningin virðist þó ekki vera eins mikil hjá heimamönnum, enda Bretarnir þekktari fyrir að vilja sparka í blöðruna en kasta henni. Sá ágæti maður sem kom blaðamanni heilum á húfi upp á hótel í gær vissi ekki að Ísland væri yfir höfuð með körfuboltalið – hvað þá að við hefðum unnið Breta í fyrsta leiknum.

„Og hvað, eru allir íslenskir í liðinu?“ spurði höfðinginn og var viss um að við hefðum keypt til okkar eintóma Kana til að spila undir skjaldarmerkinu; ekki gætum við unnið heimsveldið annars.Ég hugsaði honum þegjandi þörfina á hinu ástkæra ylhýra, vongóður um að íslenska körfulandsliðið verði lengi í minni hans og landa hans haft eftir leikinn í kvöld.

Sjá ítarlega upphitun um leik Íslands og Bretlands í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag, en leikurinn verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert