Martin: Heiður að vera hluti af þessu

„Þetta er eitthvað sem maður átti ekki von á sem pjakkur, að komast á EM. Það var alltaf fjarlægur draumur en þegar þetta er handan við hornið er maður varla búinn að átta sig á því,“ sagði Martin Hermannsson þegar blaðamaður tók hann tali við liðsrútu íslenska körfuboltalandsliðsins sem var á leið upp á hótel eftir sögulegan sigur á Bretum, 71:69.

Liðið er nú komið langleiðina í lokakeppni EM og mikið var tönglast á gildi þessa leiks í kvöld. Hvernig gekk fyrir ungan leikmann eins og Martin að takast á við svona stórt verkefni?

„Maður lærir heilmikið af þessum eldri leikmönnum og það er heiður að vera partur af þessu. Maður þurfti að vera sjálfsöruggur og líta stórt á sig í svona leikjum. Það má ekki halda að maður sé lélegri en hitt liðið,“ sagði Martin, sem á sannarlega framtíðina fyrir sér í landsliðinu.

„„Ef allt gengur upp er það EM á næsta ári sem verður seint toppað. Maður á örugglega 10-15 ár eftir í landsliðinu svo það verður bara að stefna á HM,“ sagði Martin, en hann og Elvar Már Friðriksson, kollegi hans í landsliðinu, halda í lok mánaðarins til Bandaríkjanna þar sem þeir spreyta sig í háskólaboltanum.

„Nú er nýr kafli í mínu lífi og við erum báðir spenntir að komast út í nýtt umhverfi og sjá hvar við stöndum,“ sagði Martin, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert