Sögulegur íslenskur sigur á Bretum

Íslenska landsliðið í körfuknattleik var rétt í þessu að vinna frækinn sigur á liði Breta her í Lundúnum, 71:69, í undankeppni Evrópukeppninnar í körfuknattleik. Sigurinn þýðir að íslenska liðið er nánast komið áfram í lokakeppnina í fyrsta sinn í sögunni, og á enn möguleika á efsta sæti riðilsins.

Það virtist einhver skrekkur í íslenska liðinu í upphafi eins og búast mátti við. Þeir voru hins vegar fljótir að ná áttum og eftir að Jón Arnór Stefánsson kom inn af bekknum breyttist leikurinn til hins betra. Ísland var fjórum stigum undir eftir fyrsta leikhluta, 22:18.

Annar leikhluti byrjaði illa fyrir íslenska liðið. Sérstaklega sóknarlega. Bretarnir skoruðu tíu stig í röð og náðu mest þrettán stiga forystu um miðbik hans, en íslenska liðið saxaði á forskotið áður en flautað var til hálfleiks. Staðan 38:28 fyrir Breta í hálfleik, tíu stiga munur.

Íslenska liðið náði hins vegar upp taktinum um miðbik þriðja hluta, skoraði þá níu stig í röð sem gaf heldur betur tóninn í síðari hluta hans. Helgi Már kláraði leikhlutann með þrist og Ísland var yfir að honum loknum, 56:54.

Þetta gaf íslenska liðinu sannarlega meðbyr fyrir fjórða leikhluta og Hörður Axel gaf tóninn með þrist og forystan komin í fimm stig. Baráttan var mikil það sem eftir lifði leikhlutans og spennan ekki minni. Þegar yfir lauk munaði tveimur stigum á liðunum, lokatölur 71:69 fyrir Ísland!

Jón Arnór Stefánsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 23 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 17. 

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is sem má sjá hér að neðan. Viðtöl við leikmenn birtast hér á vefnum síðar í kvöld auk þess sem fjallað verður um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

40. Leik lokið, lokatölur 69:71. Ég á ekki orð, ekki eitt aukatekið. Bara ef ég gæti útskýrt gæsahúðina!!

40. Staðan er 69:71. Leikhlé, Bretar klúðruðu vítaskoti. Munurinn tvö stig og nánast ekkert eftir! - Hörður Axel fór á vítalínuna þegar tvær sekúndu voru eftir en klúðraði báðum.

40. Staðan er 69:71. 4 sekúndur á klukkunni!! 

40. Staðan er 67:71. Jón Arnór setur niður þrist þegar sóknin var að renna út! OG ÍSLAND STELUR BOLTANUM!

39. Staðan er 65:66. Nei!! Hlynur virðist hafa snúið sig illa á ökkla og liggur sárkvalinn við hliðarlínuna. Þetta er ekki gott, ekki gott! 

39. Staðan er 62:66. Hörður setur niður tvö vítaskot, fjögurra stiga munur og 1:44 á klukkunni.

38. Staðan er 60:64. Tvær breskar körfur í röð, 2:54 á klukkunni en þá kemur Hörður Axel og setur niður þrist!

35. Staðan er 56:61. Bretar taka leikhlé þegar Haukur kemur íslenska liðinu fimm stigum yfir á ný. Þvílíkur leikur!

35. Staðan er 56:59. Lítið skorað núna en þeim mun meiri barátta. Áhofendur hér í höllinni eru löngu þagnaðir!

31. Staðan er 54:59. Hörður setur niður þrist og munurinn kominn í fimm stig. Það lenti hérna víkingur á mér áðan þegar Hlynur kom á ferðinni og lenti utan vallar, en hann hefur örugglega tekið frákast í leiðinni ef ég þekki hann rétt!!

30. Þriðja leikhluta lokið, staðan er 54:56. Helgi klárar þennan leikhluta með þriggja stiga körfu og kemur Íslandi tveimur stigum yfir fyrir fjórða og síðasta hlutann. Það er ekki HÆGT að útskýra þetta andrúmsloft. Jón Arnór er stighæstur með 18 stig og svo er Hlynur kominn með 9 fráköst. Tveir hjá Bretunum eru komnir með 11 stig, en við hugsum ekkert um það hérna. Koma strákar!!

30. Staðan er 54:53. Frábær vörn og bekkurinn ærist af fögnuði við lítinn fögnuð dómara leiksins sem segir þeim að setjast. Hörður Axel minnkar muninn niður í eitt stig á ný, 30 sekúndur eftir.

29. Staðan er 53:48. Logi setur niður tvö vítaköst, auðvitað!! Martin og Hörður Axel koma inn fyrir þá Jón Arnór og Pavel. Munurinn þrjú stig, 1:57 eftir af þriðja leikhluta.

28. Staðan er 48:47. Hlynur tekur ALLT sem er undir körfunni, þvílíkur víkingur. Skeggið lúkkar líka. Svo setur Jón niður þrist og er kominn með 18 stig. Gæsahúð!!

27. Staðan er 46:44. Þetta er LEIKUR hérna. Íslenska liðið stal boltanum svo allt ærðist á bekknum, við lítinn fögnuð ritaraborðsins þar sem bara þjálfarinn má standa. En það verður að fagna!

26. Staðan er 46:42. ÞARNA MAÐUR MINN! Pavel með þrist, og sá var fallegur og ekki síður mikilvægur. Fjögur stig góðir hálsar og sjö í röð frá íslenska liðinu, þá var heldur betur ekki kátt í höllinni lengur!

25. Staðan er 46:39. Flottur kafli! Haukur Helgi með frábæran þrist, síðan tekur Hörður eina troðslu fyrir sjónvarpið. Það er að lifna yfir íslenska liðinu, sem eru frábærar fréttir!

23. Staðan er 46:34. Það vantar smá bit í þetta og ákveðni í vörnina. Jón Arnór er heldur betur að sanna mikilvægi sitt bæði í vörn og sókn. Hinir verða hins vegar að fylgja með, það á að hjálpast að við að draga vagninn.

21. Staðan er 41:31. Bretarnir byrja þriðja leikhluta á þremur stigum. Það gerir hins vegar Jón Arnór líka fyrir Ísland!

20. Hálfleikur, staðan er 38:28. Sóknarleikinn þarf að bæta í síðari hálfleik, tíu stig í öðrum leikhluta er ekki vænlegt til árangurs. Strákarnir eru grimmir í vörninni en það er breska liðið líka sem hefur komið illa við okkar skotmenn. En tíu stiga munur í hálfleik er ekkert hræðilegt, alls ekki!
Jón Arnór er stigahæstur með níu stig en þeir Hlynur, Hörður og Logi eru allir með fimm, auk þess sem Hlynur hefur tekið sex fráköst. Hjá Bretum er Dan Clark með níu stig og þeir Andrew Sullivan og Kyle Johnsson átta.

19. Staðan er 37:28. Þvílík vinnsla í fyrirliðanum, hann skellur harkalega á bakið en náði frákastinu sem skilaði körfu. Svo blokkar hann glæsilega í vörninni strax á eftir! Hann sest nú á bekkinn en Helgi Már kemur inn.

18. Staðan er 37:24. Nú væri gott að minnka muninn fyrir hálfleikinn. Jón Arnór klikkaði á þrist en frákastakóngurinn Hlynur var auðvitað mættur og tók boltann. Bretar loka vel á skotmennina okkar sem neyðast oftar en ekki í erfið skot. Á meðan nota Bretarnir vel stóru mennina sína undir körfunni sem hefur skilað óþarflega mörgum stigum.

16. Staðan er 32:24. Góður kafli hjá breska liðinu sem hefur skorað tíu stig í röð. Jón Arnór skoraði langþráða körfu fyrir íslenska liðið eftir að Hlynur kom í hjálparvörnina með Martin. Svona á að gera þetta strákar!

13. Staðan er 29:20. Breska liðið er mjög hreyfanlegt, kannski hreyfanlegra en maður bjóst við. Það er hins vegar styrkur íslenska liðsins líka sem hefur staðið fyrir sínu. Jón Arnór hefur sannað mikilvægi sitt, er stigahæstur og vinnur gríðarlega vel í vörninni.

10. Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 22:18. Ekkert hægt að kvarta yfir þessu frá íslenska liðinu, stressið er farið og hugurinn kominn á þann stað þar sem hann þarf að vera. Áhorfendur láta vel í sér heyra og styðja Bretana af krafti, en íslenska liðið er öllu vant eftir Bosníuleikinn. 

9. Staðan er 20:16. Logi setti niður þrist og kom Íslandi yfir, en Sullivan svaraði á hinum endanum.

8. Staðan er 15:13. Ísland eltir en þetta er allt í lagi, strákarnir eru að hrista af sér mesta skrekkinn eins og búast mátti við í upphafi. Jón Arnór kom með meiri yfirvegun inn og er þegar kominn með fimm stig.

5. Staðan er 12:11. Jón Arnór setur niður þrist og minnkar muninn niður í eitt stig á ný. Sullivan fær gilda körfu og vítaskot í næstu sókn.

3. Staðan er 9:6. Hörður Axel með glæsilegan þrist en Bretarnir svöruðu með einum slíkum að bragði. Nú kemur Jón Arnór inn fyrir Loga.

1. Staðan er 6:2. Fyrstu stigin voru bresk og Hlynur klikkaði á þrist, en Logi skoraði fyrstu stig Íslands.

1. Leikurinn er hafinn. Áfram Ísland!

0. Það er ekkert nýtt í byrjunarliði Íslands frá fyrri leiknum sem þýðir að Jón Arnór Stefánsson byrjar á bekknum. Liðið er þannig skipað í upphafi leiks: Pavel Ermolinskij, Logi Gunnarsson, Hörður Axel Vilhjálmsson, Haukur Helgi Pálsson og Hlynur Bæringsson.

0. Þjóðsöngvarnir að baki og ég viðurkenni gæsahúð!

0. Nú er í gangi formleg kynning á leikmönnunum. Ef ég bara gæti komið í orð hvernig andrúmsloftið er hér inni þá væri það óskandi.

0. Það er allt til alls hér og lukkudýrið Leroy er farið að kveikja í áhorfendum. Hann er bláklæddur líkt og strákarnir okkar verða í kvöld, en þeir bresku spila í hvítum búningum. 

0. Áhorfendum fjölgar jafnt og þétt og spennustigið með - allavega hjá mér! Nú eru bæði lið mætt til upphitunar og leikmenn virðast sallarólegir, en undir niðri kraumar eflaust spenna!

0.

 

0. Eins og fram kom hér á mbl.is í gær þá duttu þeir Elvar Már Friðriksson og Ólafur Ólafsson úr hópnum eftir leikinn gegn Bosníu. Muniði frammistöðuna í þeim leik? Fjórði hluti var náttúrulega magnaður.
En það koma sko engir aukvisar í staðinn, Jón Arnór Stefánsson verður með og Helgi Már Magnússon einnig. Koma þeirra inn í þennan leik gaf þjálfarateyminu mikið um að hugsa, enda jákvætt að menn berjist um stöður. 

0. Það var mikið fagnað þegar breska liðið gekk inn á völlin til upphitunar. Það eru ekki margir árhorfendur komnir nú þegar þetta er skrifað 40 mínútum fyrir leik, en höllin er þannig byggð að það þaf ekki mikið til að skapa svakalegan hávaða.

0. Leikmenn Íslands eru að skjóta sig í gang hér í upphitun. Koparkassinn tekur 5.500 manns í sæti og búist er við rétt um fimm þúsund áhorfendum á þennan leik.

0. Velkomin til leiks! Andri Yrkill Valsson heilsar héðan úr Koparkassanum þar sem þessi gríðarlega þýðingarmikli leikur Bretlands og Ísland hefst eftir um það bil klukkustund. 

Lið Bret­lands: Kieron Achara, Ashleh Hamilt­on, Dev­an Bailey, Devon Van Oostr­um, Andrew Sulli­v­an, Ga­reth Mur­rey, Daniel Clark, My­les Hes­son, Matt­hew Brayn-Aman­ing, Erick Boa­teng, Kyle John­son, Benjam­in Mockford. 

Lið Íslands: Axel Kára­son, Hauk­ur Helgi Páls­son, Mart­in Her­manns­son, Sig­urður Þor­steins­son, Hlyn­ur Bær­ings­son, Jón Arn­ór Stef­áns­son, Helgi Már Magnús­son Sig­urður Þor­valds­son, Ragn­ar Nathana­els­son, Hörður Axel Vil­hjálms­son, Logi Gunn­ars­son, Pavel Ermol­in­skij

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert