Hlynur og Pavel efstir

Hlynur Bæringsson hefur verið drjúgur í fráköstum.
Hlynur Bæringsson hefur verið drjúgur í fráköstum. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Hlynur Bæringsson hefur tekið flest fráköst að meðaltali í leik af öllum leikmönnum allra liða það sem af er undankeppni Evrópumótsins í körfubolta 2015. Hlynur hefur tekið samtals 33 fráköst í leikjunum þremur sem Ísland hefur spilað í undankeppninni eða 11,0 fráköst að meðaltali.

Makedóníumaðurinn Venard Richard Hendriks, sem reyndar er fæddur í Bandaríkjunum er í öðru sæti yfir flest fráköst að meðaltali í undankeppni EM. Hendriks hefur tekið 42 fráköst í fjórum leikjum og er með að meðaltali 10,5 fráköst í leik.

Næsti Íslendingur á listanum er Pavel Ermolinskij í 21. sæti með 6,5 fráköst að meðaltali í leik. Pavel er svo með langflestar stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann hefur gefið 8,0 stoðsendingar að meðaltali í leikjunum tveimur sem hann hefur spilað í undankeppninni. Næstur á eftir honum er svo Gal Mekel frá Ísrael með 7,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Þá er Pavel einnig í 3. sæti yfir flest varin skot. Hann hefur varið 2,0 skot að meðaltali í leik, en efstur á listanum er Marco Cusin frá Ítalíu með 3,0 varin skot að meðaltali.

Logi Gunnarsson og Hörður Axel Vilhjálmsson eru efstir í íslenska liðinu yfir flest stig að meðaltali í leik í undankeppninni. Þeir eru í 31. og 32. sæti allra leikmanna undankeppninnar með 12,3 stig að meðaltali. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert