Hlynur: Síðasti séns að komast á stórmót

Hlynur Bæringsson fyrirliði lætur til sín taka í leiknum í …
Hlynur Bæringsson fyrirliði lætur til sín taka í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska körfuboltalandsliðsins, sagði undankeppni EM að þessu sinni hafa verið síðasta tækifæri hans kynslóðar í körfuboltalandsliðinu til þess að komast á stórmót. 

Hlynur er hluti af öflugri kynslóð leikmanna sem hafa lyft landsliðinu á hærra plan en þar má einnig nefna Jón Arnór Stefánsson, Loga Gunnarsson, Helga Má Magnússon og Jakob Örn Sigurðarson sem ekki var með í þessari undankeppni. 

„Þegar landsliðið fór aftur af stað eftir pásu fyrir þremur árum síðan þá kom þessi hugsun upp í hugann en þegar maður sá riðilinn sem við lentum í fyrir tveimur árum þá var ljóst að möguleikinn var lítill. EM 2015 var því eiginlega síðasti sénsinn fyrir okkur þessa eldri til að komast á stórmót með landsliðinu,“ sagði Hlynur við mbl.is og kom á framfæri þökkum frá landsliðsmönnunum til allra sem lögðu leið sína í Höllina til að styðja liðið. „Stemningin var frábær og maður er þakklátur fyrir stuðninginn. Einnig vil ég þakka öllum sjálfboðaliðunum sem koma að landsleikjum og landsliðinu fyrir hönd KKÍ. Þeir vilja stundum gleymast.“

Hlynur lék aðeins rúmlega 7 mínútur í kvöld en hann tognaði á ökkla í sigurleiknum gegn Bretum í London á dögunum. Með Hlyn inni á vellinum í síðari hálfleik hefðu möguleikar Íslands á sigri gegn Bosníu væntanlega verið betri en Bosnía sigraði 78:70 eftir spennandi leik. „Ég fann í upphitun fyrir leikinn að þetta yrði erfitt fyrir mig. Ökklinn er ekki alveg nógu góður og ég get ekki spyrnt mér almennilega frá gólfinu. Ég vissi því að ég myndi ekki endast lengi inni á en vildi vera til staðar ef á þyrfti að halda. Þess gerðist hins vegar ekki þörf í síðari hálfleik og EM-sætið er tryggt,“ sagði baráttujaxlinn Hlynur Bæringsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert