Ísland á EM í körfubolta í fyrsta skipti

Ísland leikur í fyrsta skipti í lokakeppni Evrópumóts karla í körfuknattleik. Íslenska landsliðið tapaði, 70:78. fyrir Bosníu í síðasta leik riðlakeppninnar í Laugardalshöllinni í kvöld en það nægði því Ísland er eitt þeirra liða sem komast áfram eftir að hafa endað í öðru sæti í sínum riðli.

Á ýmsu gekk í leiknum en Bosníumenn voru töluvert betri framan af en Ísland komst yfir fyrir hlé og var yfir 47:43 að loknum fyrri hálfleik. Bosnía komst yfir í fyrsta á nýjan leik þegar sex mínútur voru eftir af leiknum og héldu forystunni út leiktímann. 

Jón Arnór Stefánsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 21 stig, þar af 17 í fyrri hálfleik. Hörður Axel Vilhjálmsson lék mjög vel og gerði 12 stig. Haukur Helgi Pálsson, Logi Gunnarsson og Pavel Ermolinskij voru með 9 stig hver. Haukur tók auk þess flest fráköst eða 9 talsins. Fyrirliðinn Hlynur Bæringsson sem er tognaður á ökkla lenti snemma í villuvandræðum og lék aðeins í rúmar 7 mínútur. 

Lið Íslands: Axel Kárason, Haukur Helgi Pálsson, Martin Hermannsson, Sigurður Þorsteinsson, Hlynur Bæringsson, Jón Arnór Stefánsson, Helgi Már Magnússon, Sigurður Þorvaldsson, Ragnar Nathanaelsson, Hörður Axel Vilhjálmsson, Logi Gunnarsson, Pavel Ermolinskij. 

Endurhlaða þarf síðuna til að sjá nýjustu færslur í lýsingunni hér að neðan.

40. mín: Leiknum er lokið. Bosnía sigrar 78:70 og vinnur riðilinn. Ísland fær 2. sæti riðilsins og fer á EM. Bæði liðin fagna ógurlega!!!

40. mín: Staðan er 74:68 fyrir Bosníu. Ísland fær boltann þegar 38 sekúndur eru eftir. Kraftaverk þarf til þess að jafna þennan leik en Ísland er komið á EM sem jú fyrir öllu. Liðið má tapa með 29 stiga mun en kemst samt áfram í 2. sæti riðilsins. 

39. mín: Staðan er 72:68 fyrir Bosníu. Bosnía með boltann. 70 sekúndur eftir. Pavel að fá sína 5. villu. 

38. mín: Staðan er 72:66 fyrir Bosníu. Leikhlé og Bosnía með boltann. Tvær og hálf eftir. Hörður Axel skoraði loksins fyrir Ísland með laglegum hætti. 

36. mín: Staðan er 70:64 fyrir Bosníu. Íslendingar komast ekkert áfram í sókninni og lokamínúturnar verða greinilega erfiðar því Bosníumenn eru komnir á bragðið. 

34. mín: Staðan er 65:64 fyrir Bosníu. Gestirnir voru að komast yfir með þriggja stiga skoti í fyrsta skipti síðan í öðrum leikhluta. Nú þurfa okkar menn að taka við sér. 

32. mín: Staðan er 63:60 fyrir Ísland. Pavel byrjaði leikhlutann á þriggja stiga körfu og Logi bætti við stigum af vítalínunni. Bosnía hefur ekki verið yfir síðan í öðrum leikhluta. 

30. mín: Staðan er 58:58 fyrir síðasta leikhlutann. Mikil spenna í augnablikinu en róðurinn hefur verið þungur síðustu mínúturnar og harkan eru að aukast. 

29. mín: Staðan er 56:56. Bosnía er með boltann og tekur leikhlé. Fimm stig í röð frá þeim. 

27. mín: Staðan er 56:51 fyrir Ísland. Frumkvæðið er enn Íslendinga en Bosnía minnkaði muninn niður í eitt stig um tíma. Eins og tölurnar sýna þá á Ísland góða möguleika á því að vinna leikinn en okkar menn þurfa þá að halda einbeitingu því Bosníumenn eru fljótir að refsa fyrir mistök. 

24. mín: Staðan er 52:47 fyrir Ísland. Leikurinn er algerlega í járnum. Villurnar hafa hrannast upp. Hlynur er ennþá með 3 villur en sex leikmenn Íslands eru með 2 villur. Gæti orðið vesen þegar á líður. 

22. mín: Staðan er 50:43 fyrir Ísland. Síðari hálfleikur er hafinn. Pavel byrjaði seinni hálfleik á þriggja stiga körfu og kom Íslandi sjö stigum yfir. 

20. mín: Staðan er 47:43 fyrir Ísland þegar leikmenn ganga til búningsherbergja í leikhléi. Frábær staða eftir erfiðan fyrsta leikhluta og áhorfendur eru vel með á nótunum. Skagfirðingurinn Axel Kára hefur komið inn af bekknum með gott framlag og skoraði þriggja stiga körfu skömmu fyrir hlé. Jón Arnór hefur skorað 17 stig í fyrri hálfleik á móti þessu hákarlaliði. Þjálfari Bosníu, Ivanovic, þjálfar stórlið Panathinaikos í Grikklandi og með sama áframhaldi á Jón eftir að fá tilboð þaðan áður en kvöldið er á enda runnið. Rétt er að taka fram að Ísland komst yfir í öðrum leikhluta á meðan Jón var hvíldur. Haukur Páls og Hörður Axel eru með 7 stig hvor. Logi kemur næstur með 6 stig. 

17. mín: Staðan er 38:37 fyrir Ísland. Pavel kemur Íslandi yfir með þriggja stiga skoti eftir sendingu frá Axel. Loksins datt skot frá Pavel. Við höfum tekið forystuna og það með Jón Arnór og Hlyn utan vallar. 

16. mín: Staðan er 36:35 fyrir Bosníu. Logi var að skora eftir glæsilegt gegnumbrot og fékk villu að auki. Setti vítið niður. Ávallt áræðinn Logi og missir aldrei kjarkinn enda 100 landsleikja maður. Þegar maður sér Loga spila á móti toppliði eins og Bosníu þá áttar maður sig betur á því hversu snöggur hann er ennþá þrátt fyrir að vera orðinn gamall í íþróttaárum. 

15. mín: Staðan er 35:32 fyrir Bosníu. Haukur minnkaði niður í þrjú stig með þriggja stiga körfu. Hann er þá kominn með sjö stig í öðrum leikhluta. 

14. mín: Staðan er 34:29 fyrir Bosníu. Okkar menn eru að nálgast. Haukur minnkaði niður í fimm stig, þá kom þristur frá Bosníu en Logi setti þrist í staðinn fyrir Ísland. Vonandi er hann þá kominn á bragðið. Hlynur er hins vegar kominn með þrjár villur og aftur sestur á bekkinn. 

12. mín: Staðan er 29:21 fyrir Bosníu. Hörður Axel setti niður þrist, Bosníumenn svöruðu að bragði. Haukur Helgi var að skora eftir fallega hreyfingu en í kjölfarið kom troðsla frá Bosníu. 

10. mín: Staðan er 24:16 fyrir Bosníu. Erfiðum fyrsta leikhluta er lokið. Martin skoraði síðustu tvö stigin af vítalínunni. Jón Arnór og Hlynur hafa staðið upp úr í íslenska liðinu en margir lykilmenn eru ekki komnir í takt við leikinn eins og til dæmis Haukur Páls og Pavel. Íslenska liðið á nokkuð inni myndi ég halda en það á greinilega mjög erfitt með að verjast bosníska liðinu. Bosníumennirnir eiga ekki bara stóra og öfluga menn inni í teig heldur hitta þeir einnig vel fyrir utan. 

10. mín: Staðan er 24:14 fyrir Bosníu sem tekur leikhlé þegar 36 sekúndur eru eftir af fyrsta leikhluta. Hlynur fékk tvær villur á fyrstu fimm mínútunum og hefur verið hvíldur síðan þá. Leikurinn var í járnum á meðan hans naut við en síðan þá hefur hallað undan fæti. Jón er einnig búinn að fá hvíld í tvær mínútur. 

7. mín: Staðan er 17:10 fyrir Bosníu. Ísland tekur leikhlé. Jón Arnór hefur skorað öll stig Íslands, þar af eru tveir þristar. Of mikið einstaklingsframtak í sókninni hjá íslenska liðinu sem er á köflum tilviljunarkennd auk þess er erfitt að verjast bosníska liðinu sem nýtir sér hæðarmuninn ágætlega. 

4. mín: Staðan er 8:7 fyrir Bosníu. Gestirnir hafa skorað tvær þriggja stiga körfur. Jón Arnór hefur skorað öll stig Íslands. Hann missteig sig lítillega eftir 3 mínútur en fór ekki út af og það virðist ekkert há honum þó hann hafi haltrað fyrst um sinn. 

2. mín: Staðan er 3:2 fyrir Ísland. Bosníumenn skoruðu fyrstu körfuna en Jón Arnór svaraði með þriggja stiga körfu. Er þetta það sem koma skal frá honum í kvöld?

0. Páll Sævar Guðjónsson vallarþulur leikur nú Gyla Ægis slagarann Stolt siglir fleyið mitt með Áhöfninni á Halastjörnunni og áhorfendur klappa með. Ósennilegt að Bosníumennirnir hafi heyrt þetta lag. 

0. Íslensku leikmönnunum var vel fagnað þegar þeir voru kynntir rétt í þessu. Leikurinn hefst nú innan skamms en nú eru leiknir þjóðsöngvar þjóðanna. 

0. Þær góðu fréttar hafa borist úr álfunni að í ljósi úrslita í leikjum sem þegar eru búnir í dag að íslenska landsliðsins megi tapa með þrjátíu stiga mun í kvöld en EM-sætið verði engu að síður tryggt. Auk þess er leik Hollands og Svartfjallalands ekki lokið. Við skulum vona að ekki þurfi að koma til þessara útreikninga og íslenska liðið verði í hörkuleik gegn sterku liði Bosníu hér í kvöld. 

0. Nú þegar sléttar tuttugu mínútur eru í leik er Höllin að fyllast og útlit fyrir meiri og betri stemningu en áður hefur sést hjá körfuboltalandsliðinu á heimavelli. Leikmenn beggja liða eru nú að hita upp á parketi Hallarinnar. 

0. Góða kvöldið og velkomin hingað í Laugardalshöllina þar sem það er heldur betur mikilvægur leikur framundan. Nú þegar rétt tæpur klukkutími er í leikinn eru áhorfendur þegar farnir að fjölmenna. Miðar á leikinn seldust upp í forsölu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert