Hvar mun EM fara fram?

Ekki liggur ljóst fyrir hvar íslenska landsliðið í körfuknattleik mun spila í lokakeppni EM í september á næsta ári. Ástæðan er sú að mótshaldararnir Úkraína misstu mótshaldið frá sér í júní vegna stjórnmálaástandsins þar í landi. Átta þjóðir hafa nú sótt um að halda EM í stað Úkraínu. 

Af þessum átta þjóðum sem hafa formlega sótt um að halda EM eru stórþjóðir í álfunni eins og Þýskaland og Frakkland en Frakkar eru ríkjandi Evrópumeistarar.

Þá eru körfuboltastórveldin Króatía og Tyrkland á meðal þeirra sem vilja fá að halda EM en ekki eru mörg ár síðan Tyrkir héldu HM í körfubolta. 

Tvær þjóðir sem liggja ekki ýkja langt frá Íslandi eru á meðal umsækjenda: Finnland og Lettland.

Pólland sótti einnig um en þar var EM haldið fyrir nokkrum árum. Þá er Ísrael á meðal umsækjenda en ekki er talið að Ísraelsmenn eigi mikla möguleika vegna ástandsins á Gaza þó þeir standi framarlega í körfuboltanum. 

Gert er ráð fyrir því að úr því fáist skorið hverjir munu verða gestgjafar á EM þegar stjórn Körfuknattleikssambands Evrópu, FIBA Europe, hittist á fundi í september. Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, situr í stjórn FIBA Europe og mun því væntanlega sitja fundinn. 

Hannes Jónsson. Formaður KKÍ. Pétur Hrafn Sigurðsson.
Hannes Jónsson. Formaður KKÍ. Pétur Hrafn Sigurðsson. hag / Haraldur Guðjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert