Nýtur þess að spila á ný

Hörður Axel Vilhjálmsson sækir að varnarmanni Bosníu í landsleik Íslendinga …
Hörður Axel Vilhjálmsson sækir að varnarmanni Bosníu í landsleik Íslendinga og Bosníu í Laugardalshöll á miðvikudagskvöldið. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hörður Axel Vilhjálmsson var einn af lykilmönnum íslenska körfuboltalandsliðsins sem tryggði sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins í fyrsta sinn í sögunni nú í vikunni. Hörður hafði þó ekki mikinn tíma til að melta tíðindin þá, því hann fór í flug einungis fjórum tímum eftir lokaflautið og var staddur í Slóveníu þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær. Þar er hann í æfingaferð með liði sínu Mitteldeutscher, en hann sneri aftur þangað í vor eftir eitt ár hjá Valladolid á Spáni.

„Þetta er allt saman að síast inn núna, sérstaklega að koma til móts við liðið þar sem allir óska manni til hamingju og tala um hvað þetta sé stór áfangi. Þá áttar maður sig á þessu. Þetta er bara magnað og eitthvað sem maður gerði sér ekki miklar vonir um að gæti nokkurn tímann gerst,“ sagði Hörður aðspurður hvort hann væri búinn að melta þennan stóra áfanga.

Hann segir landsleikina nú í ágúst ekki síst hafa verið mikilvæga fyrir sig persónulega. „Það var gott fyrir mig að fá þessa landsleiki og fá að æfa með nokkrum af mínum bestu vinum, til að finna sjálfstraustið aftur. Það var mikilvægt að hafa þetta skemmtilegt á ný og ekki skemmir fyrir að ná svona rosalega góðum úrslitum,“ sagði Hörður, sem talar í kjölfarið um erfiða tíma í dvöl sinni hjá Valladolid í vetur.

„Árið á Spáni var erfitt. Ég gæti lokað augunum og bent í einhverja átt og þá klikkaði það líka. Það var ekkert sem gekk upp og allt rosalega erfitt, þegar þarf að hafa áhyggjur af öllu þá spilar maður ekki vel,“ sagði Hörður, sem gekk til liðs við Valladolid síðasta sumar eftir að hafa áður spilað með Mitteldeutscher í Þýskalandi, þangað sem hann sneri aftur í vor.

Ýtarlegt viðtal er við Hörð Axel í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert