Fullt hús hjá Bandaríkjunum og Slóveníu

Slóveninn Goran Dragic sækir að körfu S-Kóreumanna.
Slóveninn Goran Dragic sækir að körfu S-Kóreumanna. AFP

Bandaríkjamenn og Slóvenar héldu sigurgöngu sinni áfram á HM í körfuknattleik á Spáni í kvöld.

Í C-riðlinum fögnuðu Badaríkjamenn sigri á móti Ný-Sjálendingum, 98:71, þar sem Anthony Davis var með 21 stig fyrir Bandaríkin og Kenneth Faried 15. Þar með hafa Bandaríkjamenn unnið alla þrjá leiki sína á mótinu.

Úkraínumenn unnu sinn anna sigur en þeir höfðu betur á móti Tyrkjum, 64:58. Olexsandr Mishula var stigahæstur í liði Úkraínu með 19 stig.

Í D-riðlinum unnu Slóvenar sinn þriðja sigur í jafnmörgum leikjum þegar þeir báru sigurorð af S-Kóreumönnum, 89:72. Goran Dragic leikstjórnandi Phoenix Suns var atkvæðamestur í liði Slóvena með 22 stig.

Óvænt úrslit urðu þegar Ástralir fögnuðu sigri á móti hinu geysisterka liði Litháa, 82:75. Joe Ingles skoraði 18 stig fyrir Ástrali sem voru 19 stigum yfir eftir fyrri hálfleikinn. Renaldas Seibutis var með 21 stig fyrir Úkraínumenn sem fyrir leikinn höfðu unnið tvo fyrstu leiki sína.

Einnig áttust við í D-riðlinum Mexíkó og Angóla og þar urðu sögulegt úrslit því Mexíkó hrósaði sínum fyrsta sigri á HM í 40 ár en lokatölur urðu, 79:55.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert