Senegalar slá í gegn á HM

Leikmenn Senegal fagna eftir sigur á Króatíu í gærkvöld á …
Leikmenn Senegal fagna eftir sigur á Króatíu í gærkvöld á HM í körfubolta sem fram fer á Spáni. AFP

Landslið Senegals kom heldur betur á óvart í gær þegar það vann landslið Króatíu, 77:75, á heimsmeistaramótinu í körfuknattleik karla sem hófst á Spáni á laugardag. Þetta var annar sigur Senegalbúa á mótinu en þeir unnu einnig Púertóríkó í annarri umferð á sunnudaginn, 82:75, en töpuðu fyrir Grikkjum í fyrstu umferð.

Tveir sigrar í þremur leikjum á heimsmeistaramóti eru e.t.v. ekki merkileg staðreynd en þegar litið er til fyrri afreka landsliðs Senegals á heimsmeistaramóti í körfuknattleik eru sigrarnir á mótinu nú athyglisverðir þar sem fyrir mótið hafði landslið Senegals aðeins unnið tvo leiki á HM frá upphafi. Sá fyrri var í viðureign við Kína á HM 1978 og sá síðari á landsliði Suður-Kóreu á HM 1998.

„Við gerðum okkur ekki miklar vonir um stór afrek áður en mótið hófst,“ sagði Hamady Ndiaye, einn leikmanna landsliðs Senegals, léttur í bragði eftir sigurinn á Króötum í Sevilla í gær. „Það var meira í gamni en alvöru sem við sögðumst ætla að skrifa nýjan kafla í sögu landsliðsins. Við höfum aldeilis staðið við þau gamansömu orð okkar,“ sagði Ndiaye ennfremur.

Þess má geta að Senegalar voru síðast með á HM í Japan 2006 og fóru þá heim eftir fimm tapleiki. Þeir mæta Argentínumönnum næst á miðvikudag. Argentína vann Filippseyjar í gær, 85:81.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert