Sigurður sá sjötti í Svíþjóð í vetur

Sigurður Gunnar Þorsteinsson spilar í Svíþjóð í vetur.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson spilar í Svíþjóð í vetur. mbl.is/Ómar

Sigurður Gunnar Þorsteinsson, landsliðsmiðherji í körfuknattleik, hefur samið við sænska úrvalsdeildarliðið Solna Vikings. Hann kemur til félagsins frá Grindavík þar sem hann hefur leikið þrjú síðustu ár.

Þetta staðfesti Sigurður í samtali við Vísi.is í dag. Þar segir að Ísfirðingurinn hafi skrifað undir samning til eins árs við Solna, sem áður hefur verið með Loga Gunnarsson og Helga Má Magnússon í sínum röðum.

„Þeir voru búnir að skoða mig í sumar en síðan kom þetta upp í gærkvöldi og ég fékk samning í hendurnar í morgun,“ sagði Sigurður sem er 26 ára gamall og lék með Keflavík áður en hann fór til Grindavíkur.

Þar með verða sex íslenskir leikmenn í sænsku úrvalsdeildinni í vetur. Haukur Helgi Pálsson kom til LF Basket í sumar, og hjá Sundsvall verða þeir Hlynur Bæringsson, Jakob Örn Sigurðarson, Ragnar Nathanaelsson, Ægir Þór Steinarsson. Þá er Sigrún Sjöfn Ámundadóttir komin til Norrköping.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert