Ómar: Hugsuðu um að öskra á dómarana

Ómar Örn Sævarsson skoraði 13 stig og tók 11 fráköst …
Ómar Örn Sævarsson skoraði 13 stig og tók 11 fráköst fyrir Grindavík í kvöld. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

„Það voru fleiri en Ólafur sem voru farnir að hugsa mikið meira um dómarana en nokkurn tímann að spila vörn, skora eða hvaða leikkerfi við værum að spila. Menn hugsuðu bara um að öskra á dómarana,“ sagði Ómar Örn Sævarsson, leikmaður Grindavíkur, eftir tapið stóra gegn Stjörnunni í kvöld, 103:78, í Dominos-deildinni í körfuknattleik.

Grindvíkingar létu dómgæslu og mótlæti fara gríðarlega í taugarnar á sér í kvöld og í 3. leikhluta, þar sem Grindavík skoraði aðeins 10 stig gegn 30, var Ólafi Ólafssyni vísað úr húsi eftir kjaftbrúk og spark í auglýsingaskilti.

„Við klikkuðum á einföldum varnarfærslum og létum það færast út í óþarfa pirring út í dómarana sem reyna sitt besta til að missa ekki stjórn á leiknum, og nota þá tæknivillur og ásetningsvillur til þess. Við það urðu menn ennþá ósáttari og þetta var bara svona snjóbolti sem rúllaði hratt niður hlíðina og stækkaði. Þetta stoppaði ekki fyrr en í fjórða leikhluta og þá var það allt of seint,“ sagði Ómar.

„Stjarnan er rosalega öflug á heimavelli, fljótir að skora og ef þeir ná nokkrum sóknum í röð er munurinn fljótur að fara í 20-30 stig,“ bætti hann við.

Það er vörnin sem er að drepa okkur

Grindavík átti í fullu tré við Stjörnuna í fyrri hálfleik í kvöld en liðið fékk lítið framlag frá Bandaríkjamanninum Joel Haywood sem virðist ekki falla vel inn í leik liðsins. Ómar vildi þó ekki taka Haywood sérstaklega fyrir.

„Hann er ekki kominn inn í flæðið okkar í sókninni og það á við um flesta okkar. Flæðið þar er ekki gott en við náum alltaf að skora frekar mikið. Það er vörnin sem er að drepa okkur. Við erum hræðilegir í vörn. Þetta er verra en ég bjóst við. Það hefur verið mikið um meiðsli í okkar herbúðum, þó það sé ömurleg afsökun, og við erum komnir styttra á veg en ella,“ sagði Ómar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert