Nash ekkert með í vetur

Steve Nash í leik með LA Lakers.
Steve Nash í leik með LA Lakers. AFP

Bakvörðurinn þrautreyndi Steve Nash mun ekkert leika með Los Angeles Lakers á komandi keppnistímabili í NBA-deildinni í körfuknattleik og þar með eru miklar líkur á að löngum ferli hans sé lokið.

Nash, sem er orðinn fertugur, glímir við slæm bakmeiðsli og þau tóku sig upp á dögunum þegar hann bar þungar töskur. Hann kom til Lakers fyrir tveimur árum og hefur spilað 65 leiki fyrir Lakers en í þeim hefur Nash skorað 11,4 stig og átt 6,4 stoðsendingar að meðaltali í leik.

„Mitt stóra markmið var að spila í vetur og það eru mikil vonbrigði að ná því ekki. Ég legg mikla vinnu í að halda mér í góðu formi og því miður er það ógerlegt eftir þetta síðasta áfall. Ég mun halda áfram að styðja liðið á meðan ég er frá og einbeiti mér að því að ná mér að fullu,“ sagði Nash í yfirlýsingu.

Steve Nash er Kanadamaður, fæddur í Suður-Afríku, og hefur spilað í NBA-deildinni frá 1996 með Phoenix Suns, Dallas Mavericks og Lakers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert