Arnþór: Þurfum að vinna í sjálfstraustinu

Arnþór Freyr Guðmundsson og nýliðar Fjölnis töpuðu sínum sjötta leik í Dominos-deild karla í körfuknattleik í kvöld þegar Stjarnan hafði betur í Garðabæ, 93:76. Jafnt var á með liðunum framan af en í þriðja hluta fór að skilja á milli.

„Þriðji leikhlutinn hefur verið vandamál hjá okkur og eitthvað sem við þurfum að vinna í. Mér finnst menn alltaf vera að leggja sig fram en við þurfum að vera skynsamari og öruggari í okkar aðgerðum. Mér hefur varnarleikurinn ekki verið nógu góður í allan vetur og vorum að hitta illa líka,“ sagði Arnþór, sem sagði aðallega vanta sjálfstraust í liðið.

„Við þurfum bara sjálfstraust og við vinnum í því. Það kemur bara með tímanum. Flestir af þessum strákum voru að spila í fyrstu deildinni í fyrra og margir ekki spilað mikið í úrvalsdeild. Það er munur þar á milli,“ sagði Arnþór, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert