KR slökkti í Haukunum

KR-ingarnir Brynjar Þór Björnsson og Finnur Atli Magnússon og Haukamennirnir …
KR-ingarnir Brynjar Þór Björnsson og Finnur Atli Magnússon og Haukamennirnir Sigurður Þór Einarsson og Kristinn Marinósson í hörðum slag. mbl.is/Árni Sæberg

Leik KR og Hauka í Domino´s-deild karla í körfuknattleik lauk rétt í þessu og skemmst frá því að segja að KR unnu auðveldan sigur á heimavelli þrátt fyrir góðan vilja og baráttu gestanna úr Hafnarfirði. Lokatölur urðu 93:78 og trjóna KR-ingar enn á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, eða 14.

Leikurinn fór fjörlega af stað en eftir fyrsta fjórðung, sem var nokkuð jafn, tóku heimamenn við stjórnartaumum leiksins og héldu út allan leikinn. Áhlaup Haukanna voru nokkur í leiknum en þau voru öll aðeins til þess að koma liðinu aftur inní leikinn, en ekki til þess að ná undirtökum í honum eða komast í góða forystu. Yfirburðir heimamanna voru slíkir að ekki skipti máli hvaða leikmenn voru á vellinum, alltaf voru leikmenn með stjórn á atburðarrásinni.

Haukar eiga hrós skilið hinsvegar því þeir komu grimmir, börðust vel og þó svo að þeim hafi ekki tekist frábærlega upp þá sýndu þeir að liðið er bara í framför og svona leikur er mikilvæg reynsla fyrir framhaldið í toppbaráttunni.

Kristinn Marínósson, Helgi Einarsson, Alex Francis og Haukur Óskarsson áttu allir sæmilegan dag en það skorti uppá liðsheildina, þá sérstaklega í vörninni, til þess að vel ætti að fara.

Hjá KR var það liðsheildin sem stóð uppúr; eftir mörg áhlaup Haukanna, sem hefðu getað hleypt spennu í leikinn, komu KR-ingar alltaf grimmir tilbaka með ákveðin svör. Varnarleikur liðsins var frábær, þá sérstaklega í seinni hálfleik og þrátt fyrir að Helgi Magnússon, Brynjar Björnsson og Michael Craion hafi dregið sóknarvagninn voru allir mjög góðir í leiknum.

Pavel skilaði vissulega sínu og bekkurinn stóð fyrir sínu og þegar slíkt gerist í bland við góðan leik lykilmanna getur KR-liðið einfaldlega ekki tapað. Ógnvænlegur styrkur liðsins kom berlega í ljós í kvöld og ljóst að öll lið þurfa virkilega að hafa fyrir þeim stigum sem það ætlar sér að hirða hérna í Vesturbænum.

Meira um leikinn í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Gangur leiksins: 12:7, 14:14, 23:21, 25:23, 30:26, 35:27, 37:32, 48:38, 56:41, 58:46, 63:54, 69:58, 76:66, 83:66, 89:69, 93:78.

KR: Michael Craion 20/8 fráköst/3 varin skot, Helgi Már Magnússon 19/10 fráköst, Finnur Atli Magnússon 14/8 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 13/4 fráköst/5 stoðsendingar, Pavel Ermolinskij 12/7 fráköst/9 stoðsendingar, Björn Kristjánsson 8/5 fráköst, Vilhjálmur Kári Jensson 4, Darri Hilmarsson 3/5 fráköst.

Fráköst: 37 í vörn, 11 í sókn.

Haukar: Alex Francis 20/11 fráköst/5 stoðsendingar, Kári Jónsson 17, Emil Barja 11/5 stoðsendingar, Haukur Óskarsson 10/4 fráköst, Kristinn Marinósson 9/6 fráköst, Helgi Björn Einarsson 5/5 fráköst, Kristján Leifur Sverrisson 3, Hjálmar Stefánsson 2/5 fráköst, Brynjar Ólafsson 1.

Fráköst: 24 í vörn, 12 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson, Jón Bender.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Leikurinn er allur! Lokatölur 93:78

Þessi sigur var nokkuð öruggur og þrátt fyrir að hafa náð að skora 20 stig í síðasta hluta voru þau flest "ruslastig" þegar sigurinn var kominn í höfn. Haukar geta vel við unað að hafa ekki beðið afhroð hérna því KR er einfaldlega með yfirburðalið.

3:37 - Haukar eru hættir að fljúga! Vörn KR hefur gert sitt í leiknum og úrslit hans ekki lengur í tvísýnu. Finnur setur vítin sín og staðan 87:66 og Haukar berjast einungis núna við að halda mun í lágmarki og stoltinu og sjálfstraustinu óskertu.

5:01 - Það var eins og ég spáði, varnarleikur KR hefur slökkt í gestunum; Haukar aðeins skorað 8 stig í síðasta hluta og útlitið frekar myrkt. Staðan 83:66

6:00 - Það eru mikilvægar mínútur að fara í hönd og munu ráða því hvort spenna haldist í leiknum eður ei. Haukar verða að ná þessu vel undir 10 stigin til þess að eiga góðan möguleika á sigri en skotvalið er ennþá þvingað af góðri vörn KR, sem eru í mun minni vandræðum með sína sókn. Darri Hilmars setur þrist og virðist vera að slökkva í gestunum, sem ná varla skoti að körfu þessa stundina. Staðan þægileg fyrir KR, 81:66

8:00 - Kristinn Marínósson skorar þrist fyrir Haukana, sem KR svara en í næstu sókn skorar Kristján Sverrisson einnig þrist og staðan 73:64

3.hluti allur! Staðan 69:58

Haukarnir náðu ekki að fylgja áhlaupi sínu eftir og KR-ingar refsuðu þeim með því að skipta um gír í nokkrar mínútur! Þetta verður gríðarlega erfitt fyrir gestina að brúa núna held ég. Þeir hafa elt allan leikinn og menn orðnir lúnir og eftir að koma alltaf svona tilbaka fer allt púður. KR þurfa einungis að beita ögn meiri þrýsting til þess að klára leikinn. Varnarleikur þeirra hefur eflst síðustu mínútur.

1:30 - KR hafa svarað þessu áhlaupi gestanna af hörku og staðan orðin 67:56. Sóknir Hauka í kjölfar leikhlés KR enduðu flestar í þrigga stiga skotum sem öll geiguðu á meðan sóknir KR enduðu flestar upp við körfuna eftir auðveld gegnumbrot.

3:31 - Þrátt fyrir góðan þrist frá Helga Einarssyni þá skora KR bara í næstu sókn með því að ráðast á körfuna... Þessi varnarleikur Hauka er ekki að gera góða hluti. Kári Jónsson skorar hinsvegar þrist og vekur upp vonir og í næstu sókn stela gestirnir boltanum og Francis treður! Staðan orðin 61:54 og KR tekur leikhlé.

5:15 - Haukarnir líta ekki út fyrir að koma tilbaka á næstunni. Sóknarleikurinn er ekki nægilega smurður og það virðist vera undir KR komið hvort þeir skori eða ekki... Staðan 58:46

6:20 - Haukarnir komnir hálfir í gröfina! Craion er óstöðvandi undir körfunni og skorar aftur, kominn með 15 stig og staðan 58:43

7:31 - Haukar eru í töluverðum vandræðum hérna í byrjun. Pavel setur opinn þrist á meðan sóknartilraunir gestanna eru veikburða í besta falli, þeir halda áfram að skjóta þristum við fyrsta hanagal. Staðan 56:41

8:35 - Craion skorar fyrstu 4 stigin en Emil setur þrist og nær að stöðva áhlaup heimamanna. Pavel fær vítaskot og það fyrsta er sögulegur "loftbolti". Staðan 53:41

Seinni hálfleikur farinn af stað...

Hálfleikur: Haukarnir eru að standa sig vel að mínu viti; þeir hafa hitt illa úr vítum og ekki náð að spila sinn áhlaupsbolta en hafa tekið jafnmörg fráköst og KR og eru aðeins 10 stigum undir hérna! Þetta ætti að stemma við planið þeirra en núna eru þeir hinsvegar að tefla djarft því eitt gott áhlaup heimamanna og þá er leikurinn líklega búinn. Haukar þurfa að finna sín áhlaup með skynsamlegum leik, ekki bara með þriggja stiga ræpu við fyrsta tækifæri; koma boltanum inní teig og svo aftur út! Fá kerfin til að vinna þetta með sér hægt og bítandi, tvö stig í einu, ekki fimm og boltann aftur!

KR eru með þetta í höndum sér. Maður hefur á tilfinningunni að þeir séu að dúlla sér í öðrum gír og nenni ekki alveg að skipta í fimmta bara til að fæla ekki gesta hlutann úr stúkunni. Yfirferðin á liðinu er flott og þeir ná alltaf að svara öllum áhlaupum Haukanna áður en þau áhlaup komast á eitthvað flug.

Það ræðst á næstum 5 mín. hvort þessi leikur verður spennandi eður ei!

2. hluti allur! Staðan 48:38

Haukarnir hafa haldið í við KR með kraftmiklum leik; þeir berjast á báðum endum vallarins og þó það sé klár og sýnilegur getumunur á þessum liðum þurfa gestirnir einungis að halda þessum plani og ná að gefa sér möguleika á sigrinum þegar leik fer að ljúka. Haukarnir hafa verið of graðir að skjóta og ná sínum áhlaupum þannig, frekar en að láta þau koma til sín með því að spila sóknirnar aðeins lengur. Barátta en frábær en uppá skynsemina vantar aðeins þvi síðustu mínútur hlutans hafa KR sýnt klærnar og náð of miklu forskoti.

KR hafa spilað vel en alls ekki frábærlega. Helgi, Brynjar og Craion sjá um sóknina á meðan Darri spilar og stjórnar vörninni. Þetta lið er fínstillt og líður mjúklega áfram hérna á heimavelli og það þarf eitthvað að gerast til þess að þetta lið klúðri leiknum. Það er ljóst í mínum huga að veltur á KR hvernig þessi leikur fer.

1:27 - KR-ingar eru klókir og koma boltanum inní teig en ungur Kári Jónsson setur þrist sem hinn "aldni" Helgi Magg svarar og staðan 43:36

2:28 - Óskar Hauks skorar þrist! Haukarnir stoppa í næstu sókn og uppskera vítaskot eftir mikla baráttu í sóknarfráköstum. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir gestina og mun hleypa miklu lífi í leikinn. Staðan núna 37:33

3:30 - Francis heldur lífi í sínum mönnum með frábæru sóknarfrákasti eftir afar dapra sniðskotstilraun Haukamanna! Þessari baráttu þarf að veita í vörnina og kippa sér aftur inní leikinn því KR-ingar munu ekkert slaka mikið á klónni! Staðan 37:29

4:29 - Haukarnir eru núna að missa sig aðeins í vitleysuna; léleg skot og tapaðir boltar! KR refsa fyrir um leið. STaðan núna 37:27 og gestirnir koma ekki með byltinguna núna og breyta þessu fyrir leikhlé verður seinni hálfleikur þeim mun erfiðari fyrir þá. Þeir þurfa að koma boltanum inní teig og síðan út, ekki taka bara fyrsta þriggja stiga skotið.

5:40 - Helgi Magnússon er heitur, kominn með 10 stig og það er ekkert lát á sóknarleik KR þó svo að Pavel hvíli. Maður í manns stað! Haukarnir þurfa hinsvegar að passa sig að hlaupa ekki fram úr sér í sókninni og taka betri skot en þeir hafa sýnt síðustu mínútur. Staðan 35:27

7:42 - Barátta Francis og Craion er áhugaverð í þessum leik og ljóst að sá fyrrnefndi er meira áberandi í sókn síns liðs. Francis er kominn með 8 stig og hikar ekki við að skjóta boltanum... Brynjar hefur hinsvegar haldið sínum mönnum við efnið og eftir þennan þrist er hann með 13 stig og staðan 30:26 og KR enn með tögl og haldir á leiknum.

1.hluti allur! Staðan 25:23

Haukarnir enduðu hlutann vel á meðan KR-ingar hafa hægt aðeins á sér. KR virðast í ágætum gír en aðeins of lágum ef þeir ætla sér að hrista spræka gestina af sér, sem komu greinilega tilbúnir að spila leikinn.

1:20 - Leikurinn er hraður og lítið um varnarleik þó varnarákafinn sé klárlega til staðar hjá báðum liðum.. Staðan 25:21

2:10 - menn er ekkert að slaka á hittni! Staðan er orðin 23-21 eftir frábæra byrjun

4:10 - Emil Barja og Francis eru sjóðheitir og sóknarleikur Hauka lítur óvenjulega vel út inní teig miðað við að Craion sé til varnar. Þetta er hörkuleikur þar sem gestirnir eru hvergi bangnir en þurfa kannski að passa sig að missa sig ekki í of mikinn galsa.

7:33 - Fer vel að stað hérna í Vesturbænum. Bæði lið líta vel út og leikmenn greinilega tilbúnir í hörkuleik og ekkert lát á sóknarleiknum... Staðan 10-7

KR-ingar eru efstir með 12 stig úr sex leikjum og hafa sem sagt unnið alla leiki sína til þessa. Tindastóll er einnig með 12 stig en eftir sjö leiki. Haukar eru með 8 stig eftir 6 leiki en þeir unnu fjóra fyrstu leikina og hafa tapað tveimur þeim síðustu. Takist þeim að sigra meistarana í kvöld komast þeir í þriðja sæti deildarinnar en sem stendur eru Haukar, Keflavík, Þór Þ., Stjarnan og Njarðvík öll jöfn með 8 stig.

Flautað til leiks í DHL-Höllinni!

19:10 - Nú eru 5 mín. í leik og við vonum öll að hér fari af stað hörkuleikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert