Snæfell vann tvíframlengdan leik

Chris Woods skoraði 35 stig og tók 23 fráköst fyrir …
Chris Woods skoraði 35 stig og tók 23 fráköst fyrir Snæfell í kvöld. Ljósmynd/snaefell.is

Snæfell sigraði ÍR, 98:95, eftir gífurlega spennu og tvær framlengingar í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, í Stykkishólmi í kvöld. Snæfell er þá komið með 8 stig en ÍR er áfram með 4 stig eftir átta leiki.

Snæfell var með forystu eftir fyrsta leikhluta, 23:19. Liðin gerðu fimmtán stig hvort í öðrum leikhluta og munurinn því sá sami í hálfleik, 38:34 fyrir Snæfell. Leikurinn var enn í járnum en eftir þriðja leikhluta munaði aðeins einu stigi, 53:52, Snæfelli í hag.

Eftir venjulegan leiktíma var staðan 77:77 og því framlengt. Sigurinn blasti við ÍR sem var yfir, 77:74, þegar tvær sekúndur voru eftir. Snæfell fékk tvö vítaskot. Austin Magnus Bracey skoraði úr því fyrra, 77:75. Það seinna geigaði en Chris Woods náði frákastinu og jafnaði metin.

Snæfell lék sama leik í fyrri framlengingunni því Chris Woods jafnaði úr tveimur vítaskotum, 87:87, þegar 6 sekúndur voru eftir og ÍR nýtti ekki lokasókn sína. ÍR missti niður fjögurra stiga forskot á lokamínútunni.

Liðin voru yfir til skiptis til að byrja með í seinni framlengingunni en síðan komst Snæfell í 96:92 og það réðu ÍR-ingar ekki við. 

Chris Woods skoraði 35 stig fyrir Snæfell og tók 23 fráköst! Austin Magnus Bracey skoraði 30 stig. Tray Hampton skoraði 38 stig og 16 fráköst fyrir ÍR og Matthías Orri Sigurðarson skoraði 27 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert