Stjarnan knúði fram sigur

Harður slagur um boltann í leiknum í Ásgarði í kvöld.
Harður slagur um boltann í leiknum í Ásgarði í kvöld. mbl.is/Ómar

Stórskemmtilegum leik Stjörnunnar og Þórs í Domino´s-deild karla í körfubolta var að ljúka með sigri Stjörnunnar, 85:79. Stjarnan er þá með 10 stig í þriðja sæti deildarinnar en Þór er með 8 stig ásamt fleiri liðum.

Bæði liðin  voru bæði með 8 stig fyrir leik og því til mikils að vinna.  Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur en aldrei þannig þó að annað liðið væri mun betra heldur dúlluð bæði liðin aðeins fram úr hinu án þess þó að ná verulegum tökum á leiknum.

Eftir að leiða í fyrri hálfleik þurfti Stjarnan að elta lungann af seinni hálfleik, en liðið var mest átta stigum undir í seinni hálfleik og minnstu mátti muna að Þór næði að breikka bilið enn meira en Stjörnumenn neituðu að sleppa þeim og langt frá sér.

Það var svo ekki fyrr en seint í síðasta fjórðung að liðin fóru að skiptast á lítilli forystu og á endanum voru það heimamenn sem náðu að halda haus. Leikurinn var skemmtilegur og spennandi og alveg ljóst að sigurinn gat dottið báðum megin og Þórsarar líklega frekar þungir eftir þetta þar sem þeir áttu vissulega að gera mun betur á krítískum augnablikum á síðustu mínútum leiksins.

Marvin Valdimarsson og Justin Shouse voru bestu menn Stjörnunnar en flestir sem komu við sögu hjá liðinu stóðu sig vel. Hjá gestunum voru Vincent Sanford, Nemanja Sovic og Tómas Tómasson góðir, sem og Grétar Erlendsson. Hörkuleikur og dapurt að annað liðið þurfti að tapa.

Meira um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

Gangur leiksins: 9:5, 13:9, 17:14, 26:18, 29:24, 35:29, 36:35, 41:39, 43:45, 46:50, 53:57, 60:63, 66:70, 71:74, 77:76, 85:79, 85:79, 85:79, 85:79, 85:79.

Stjarnan: Justin Shouse 19, Marvin Valdimarsson 18/5 fráköst, Dagur Kár Jónsson 16/5 fráköst, Jarrid Frye 15/9 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 6/9 fráköst, Sigurður Dagur Sturluson 4/4 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 4/5 fráköst, Ágúst Angantýsson 2, Jón Sverrisson 1.

Fráköst: 34 í vörn, 9 í sókn.

Þór Þ.: Vincent Sanford 23/9 fráköst, Nemanja Sovic 19/14 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 16, Þorsteinn Már Ragnarsson 6, Emil Karel Einarsson 4, Oddur Ólafsson 4, Grétar Ingi Erlendsson 4/5 fráköst/3 varin skot, Baldur Þór Ragnarsson 3/5 stoðsendingar.

Fráköst: 26 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Leifur S. Gardarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Ísak Ernir Kristinsson.

Áhorfendur: 143.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Leik lokið! Lokatölur 85:79

0:27 - Staðan núna 82:76 - Þórsarar klúðruðu sinni sókn og Dagur Sturluson skorar eftir sóknarfrákast! Engum um að kenna nema sjálfum sér... Þórsarar áttu möguleika en gátu ekki nýtt sér hann betur.

0:52 - Marvin fær víti í stöðunni 79:76 og setur annað...

1:54 - eftir ævintýralega fáránlegar tilraunir til að skora hjá báðum liðum eru það heimamenn sem klúðra ögn minna og eru núna í kjörstöðu; Marvin fer á línuna í stöðunni 77:76 - tvær síðustu sóknir gestanna voru illa ígrundaðar og gætu kostað þá leikinn... Marvin setur bæði og staðan 79:76

3:40 - Sovic svarar þessu með körfu og vítaskoti. Staðan 75:76 og allt að æsast í Ásgarði.

4:00 - Risaþristur frá Frye! Staðan 75:74 og heimamenn komnir yfir aftur eftir að elta mjög lengi.

4:49 - Oddur Ólafsson keyrir í gegn og skorar. Frye er heppinn að fá víti eftir að hafa gengið á Esjuna áður en hann tók skotið. Staðan 72;74

6:20 - Marvin skorar og fær víti að auki. Þarna voru heimamenn heppnir því sóknin var léleg og tilviljun réði þessu alveg. Staðan 71:72

7:24 - Marvin klórar í bakkann en klikkar úr vítinu sem hann fékk að auki.  Þorsteinn Ragnarsson skorar og Þórsurum líður mun betur í sókninni núna þegar þeir eru með forskot. Stjörnumenn bíta frá sér, Ágúst skorar, þeir stela boltanum og skora aftur og leikurinn aftur kominn í jafnvægi, staðan 68:70. Þór tekur leikhlé þar sem Benna líst ekkert á hvað er að gerast.

9:30 - Jæja... Þór stela boltanum, skora og fá víti... Staðan 60:68

Þriðji hluti allur! Staðan 60:63

Sovic heldur áfram að hrella andstæðinga sína með sóknarfráköstum og körfum... kominn með 14 stig, Sanford, sem hefur látið lítið á sér kræla síðustu mínútur er með 21, aðrir hafa skorað minna. Shouse er kominn inn og setti strax mark sitt á leikinn með þrist og rífur sína menn áfram. Sóknin gerbreytist við komu hans og ljóst að orka liðsins er alltaf meiri þegar hans nýtur við. Þórsarar verða að nýta sér villuvandræði hans og koma honum útaf.

1:00 - Frye er að vinna fyrir kaupinu og stígur fram fyrir skjöldu! Svona eiga atvinnumenn að hugsa! Stjörnumenn að spila kerfin núna og uppskera víti sem Jón Orri tekur, skorar og staðan 57:59 og klárt mál að þessi leikur fer "niður vírinn"

2:06 - Shouse enn utanvallar. Það vantar allt flæði í sókn liðsins en Frye nær að lauma einum þrist og stelur boltanum í næstu sókn. Mikill hraði núna og mistök á mistök ofan líta dagsins ljós. Staðan 53;57

3:44 - eftir klaufagang í sókninni tapa heimamenn boltanum og Emil setur þrist fyrir gestina! Stór karfa og Stjörnumenn virðast ekki vera með stjórnartauma leiksins núna. Dagur er að koma sterkur inní stöðu Shouse og setur víti niður. Baldur setur hinsvegar þrist og núna eru gestirnir að sigla aðeins fram úr! Tómas stelur boltanum, skorar og fær víti að auki fyrir gestina! Það er rándýrt fyrir heimamenn að vera með Shouse á bekknum, það er vísindalega sannað! Staðan 50:56

5:30 - Sókn heimamann er í vandræðum núna. Shouse er utanvallar með fjórar villur og það munar alltaf miklu fyrir þetta lið að hafa hann á bekknum í stað þess að stjórna liðinu. Staðan 46:47 eftir góða körfu frá Degi Kár.

6:36 - Sovic skorar aftur! Frye fær hann á blokkinn og fiskar villu á Sanford, sem ræður alls ekki vel við hann á þessum stað. Staðan 44:47

7:38 - Sanford skorar góða körfu fyrir gestina en nýtingin hans er ekki sérlega fríð. Að þessu spyr hinsvegar enginn ef hann heldur áfram að skora. Þórsarar eru núna að ná upp smá stemningu og Sovic kemur gestunum yfir og í kjölfarið stela þeir boltanum! Staðan 43:45

Seinni hálfleikur hafinn!

Hálfleikur! Staðan 41:39

Stjarnan ætti að vera meira yfir í þessum leik! Þeirra varnarleikur hefur verið betri, þeir hafa haft forystu sem þeir ná ekki að halda, þeir hafa hitt vel og einfaldlega spilað betur. Sanford, Tómas og Sovic hafa verið allt í öllu sóknarlega, með 33, á meðan flæði Stjörnunnar hefur skilað fleirum skorurum á töfluna. Heimamenn eru vissulega búnir að vera betri aðilinn en þeir hafa ekki athugað það nægilega vel að leikur Þórs blómstrar oft þegar þeir eru undir og þeir eru gríðarlega fljótir að refsa fyrir ódýr mistök. Þetta er að koma í ljós núna og leikurinn að spilast alveg uppí hendurnar á gestunum. Það eru miklar líkur á að leikurinn muni spilast einmitt svona og verða í járnum fram á síðustu sekúndur. Ég hafði spáð framlengingu en ég sel það ekki dýrar en ég keypti og endilega bara bjalla í mig ef þið hafið áhuga á að kaupa eina spá af mér.

2:23 - Stjörnumenn ná ekki að hrista Þór af sér. Varnarleikur gestanna hefur snarbatnað með innkomu Grétars, sem nær að stoppa stóru mennina vel og uppúr því fá Þórsarar góð hraðaupphlaup, sem eru vissulega þeirra ær og kýr. Sanford fer á línuna eftir eitt slíkt og vildu gestirnir fá óíþróttamannslega villu dæmda á Ágúst en fá ekki. Þeir hafa eitthvað til síns máls, en þó aðeins í samhengi og miðað við aðra slíka dóma sem hafa sést. Staðan 36:36

3:50 - Þór þarf sóknarframlag frá fleiri mönnum; Sanford, Tómas og Sovic hafa skorað öll nema tvö stig liðsins. Sjö leikmenn hafa skorað fyrir heimamenn. Staðan 36:31

5:01 - Jón Sverrisson er kominn inn fyrir heimamenn og fer á línuna og setur sitt fyrsta stig þetta tímabil. Staðan 35:29 og heimamenn ennþá með undirtökin.

6:18 - Tómas setur stóran þrist fyrir gestina og leikurinn að jafnast núna með betri yfirvegun gestanna á báðum endum vallarins. Vörnin ágæt og sóknin að virka... Staðan 31:27

8:36 - Það er ágætt að sjá Þórsara fara inní teig núna; þeir þurfa að finna taktinn sinn í rólegheitum og ekki þvinga neitt. Staðan 27:20 og leikurinn svolítið sveiflukenndur.

Fyrsti hluti allur! Staðan 26:18

Hægt og bítandi hafa heimamenn náð smá tökum á leiknum; vörn þeirra er mun ákafari og hjálparvörnin betri og svo hafa þeir hitt betur fyrir utan. Shouse, Dagur og Marvin allir að spila fantavel og Frye fylgir fast á eftir. Þetta boðar ekki gott fyrir gestina sem mega ekki við því að allir lykilmenn finni sig í fyrsta hluta. Sovic hefur borið gestina uppi hérna og Sanford verið sæmilegur, sem og Tómas en þeir verða að spila betri vörn!

1:07 - Dæmd gjörsamlega glórulaus tæknivilla á Tómas Tómasson! Stórundarlegt alveg! Jæja... leikurinn heldur áfram þrátt fyrir skilningsleysi allra og Sovic fer á blokkina og skorar, fær víti og heldur áfram að hrella vörn heimamanna. Staðan 22:18

2:42 - Sovic er sterkur í kvöld! Tekur sóknarfráköst og fær víti fyrir vikið. Karlinn kominn með 6 stig og staðan 17:14

4:00 - Þórsarar eru grimmir og berjast vel í vörninni en geta ekki hindrað það þegar boltinn fer á Marvin niðrá blokkinni. Sóknarleikur beggja liða skína betur en varnarleikur og allt í járnum enn... staðan 15:10 og gaman að sjá hversu grimmir menn eru í að keyra upp að körfunni í stað þess að sætta sig við langskotin.

5:26 - Hraðinn er vissulega mikill og gaman að sjá tvö lið sem eru bæði vel vön því að skjóta á fyrsta tempói. Í slíkum leikjum verður það oftast þannig hinsvegar að liðið sem nær meiri varnarfestu mun finna skotfjölina á undan. Bæði liðin hér í kvöld eru að leita eftir einmitt þessu áhlaupi og ómögulegt að segja til um hvor vinnur þann slag. Dagur Kár og Shouse eru að refsa gestunum duglega þessa stundina og staðan 13:5 eftir glæsilegt gegnumbrot frá Shouse.

8:20 - Stjörnumenn byrja betur, Marvin skorar inní teig og Dagur fær frítt skot sem hann setur niður. Sovic, sem Stjörnumenn verða að passa mjög vel í þessum leik, skorar fyrir gestina og leikurinn er sérlega hraður. Dagur bætir við þrist og skemmtunin hefur göngu sína. Staðan 7:2

19:15 - Leikur að hefjast!

Byrjunarliðin eru hefðbundin, Shouse, Marvin, Frye, Ágúst og Dagur fyrir heimamenn.

Sovic, Baldur, Tómas, Sanford og Emil fyrir gestina... líf og fjör!

Leikur Stjörnunnar og Þórs fer að hefjast og býst ég við nokkuð áhugaverðum leik; bæði lið hafa verið að spila ágætis bolta og eru jöfn að stigum á töflunni. Ég á von á hröðum sóknarþenkjandi bolta, sérstaklega frá gestunum.

Liðin eru jöfn að stigum, eru bæði með 8 stig að loknum sjö umferðum, og ljóst er að sigurliðið verður í þriðja sætinu þegar leikjum kvöldsins lýkur.

Vincent Sanford hjá Þór reynir að komast framhjá Jarrid Frye …
Vincent Sanford hjá Þór reynir að komast framhjá Jarrid Frye hjá Stjörnunni. mbl.is/Ómar
Þorsteinn Már Ragnarsson úr Þór reynir skot að körfu Stjörnunnar.
Þorsteinn Már Ragnarsson úr Þór reynir skot að körfu Stjörnunnar. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert