Westbrook sneri aftur með stæl

Russell Westbrook er mættur í slaginn á ný.
Russell Westbrook er mættur í slaginn á ný. AFP

Bandaríska körfuknattleiksliðið Oklahoma City Thunder hefur ekki verið svipur hjá sjón það sem af er tímabilinu, enda hafa stjörnurnar Russell Westbrook og Kevin Durant verið fjarri góðu gamni með brotna útlimi. En í nótt sneri Westbrook aftur og það var ekki að sökum að spyrja - hann skoraði 32 stig og Thunder burstaði New York Knicks, 105:78, þegar NBA-deildin fór af stað á ný eftir frí á þakkargjörðardaginn.

Westbrook spilaði bara í 23 mínútur en það var nóg til þess að hann gerði á fjórða tug stiga, átti 8 stoðsendingar og tók 7 fráköst, en hann fór af velli þegar ljóst var orðið að sigur væri í höfn. Munurinn á liðunum var orðinn 32 stig í lok þriðja leikhluta. Amare Stoudamire skoraði 20 stig og tók 9 fráköst fyrir Knicks.

Memphis Grizzlies hélt áfram sigurgöngunni og vann Portland Trail Blazers á útivelli, 112:99, og er efst í Austurdeildinni sem fyrr. Marc Gasol skoraði 26 stig fyrir Grizzlies og Mike Conley 21. Fjórtándi sigur liðsins í fyrstu sextán leikjunum.

LA Clippers vann góðan útisigur á hinu öfluga liði Houston Rockets, 102:85. Blake Griffin skoraði 30 stig fyrir Clippers og tók 10 fráköst en Harden gerði 16 stig fyrir Houston, sem saknaði þriggja byrjunarliðsmanna vegna meiðsla.

Kanadamennirnir í Toronto Raptors eru efstir í Austurdeildinni en þeir töpuðu þó á heimavelli gegn Dallas Mavericks, 102:106. Monta Ellis átti frábæran fjórða leikhluta með Dallas, gerði þá 15 stig og 30 alls. Kyle Lowry skoraði 25 stig fyrir Toronto sem tapaði aðeins í þriðja sinn í fyrstu 16 leikjunum.

Kobe Bryant skoraði 26 stig fyrir LA Lakers sem tapaði naumlega heima fyrir Minnesota Timberwolves í slag botnliða Vesturdeildar, 119:120. Bryant reyndi 3ja stiga skot á lokasekúndunni en það geigaði og lið hans féll niður í neðsta sætið á ný.

Meistarar San Antonio Spurs unnu Sacramento Kings, 112:104, þó þjálfarinn Gregg Popovich væri heima veikur annan leikinn í röð. Tony Parker skoraði 27 stig fyrir Spurs.

Úrslitin í nótt:

Boston - Chicago 102:109
Charlotte - Golden State 101:106
Atlanta - New Orleans 100:91
Detroit - Milwaukee 88:104
Toronto - Dallas 102:106
Houston - LA Clippers 85:102
Oklahoma City - New York 105:78
Indiana - Orlando 98:83
San Antonio - Sacramento 112:104
Denver - Phoenix 122:97
Portland - Memphis 99:112
LA Lakers - Minnesota 119:120

Staðan í Austurdeild:

Toronto 13/3, Washington 9/5, Chicago 10/6, Milwaukee 10/7, Atlanta 8/6, Miami 8/7, Cleveland 7/7, Indiana 7/9, Brooklyn 6/8, Orlando 6/12, Boston 4/9, New York 4/13, Charlotte 4/13, Detroit 3/13, Philadelphia 0/15.

Staðan í Vesturdeild:

Memphis 14/2, Golden State 13/2, Portland 12/4, Houston 12/4, San Antonio 11/4, Dallas 12/5, LA Clippers 10/5, Phoenix 10/7, Sacramento 9/7, Denver 8/8, New  Orleans 7/7, Utah 5/11, Oklahoma City 5/12, Minnesota 4/10, LA Lakers 3/13.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert