„Rauður hringur utan um þessa dagsetningu“

KR-ingurinn Björn Kristjánsson og Darrel Lewis í baráttunni.
KR-ingurinn Björn Kristjánsson og Darrel Lewis í baráttunni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Það ríkti mikil gleði í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í kvöld eftir sigur Tindastóls gegn Íslandsmeisturum KR, 81:78, í Dominos-deild karla í körfuknattleik í kvöld.

Tindastóll varð þar með fyrsta liðið til að leggja KR-inga að velli en fyrir leikinn í kvöld hafði KR unnið alla 13 leiki sína í deildinni.

„Við erum að vitaskuld afar hressir,“ sagði Helgi Freyr Margeirsson leikmaður Tindastóls við mbl.is eftir sigurinn gegn KR í kvöld en Helgi skoraði 8 stig í leiknum fyrir Stólana sem er í öðru sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir KR-ingum.

„Það var rosaleg stemning í húsinu hjá þeim 900 sem voru á leiknum. Þetta var svona úrslita keppnis stemning. Við höfðum alltaf trú á að við gætum unnið KR-ingana. Eins og við lítum á þetta voru það við sem gáfum þeim sigurinn í fyrri leiknum og það er búið að vera rauðir hringur utan um þessa dagsetningu í langan tíma hjá okkur. Við erum búnir að bíða eftir því að fá KR-inga hingað norður,“ sagði Helgi Freyr.

Stólarnir náðu 10 stiga forskoti í byrjun fjórða leikhluta en KR-ingar náðu tveggja stiga forskoti þegar tæp mínúta var eftir, 78:76. Heimamenn tryggðu sér sigurinn með því að skora fimm síðustu stigin í leiknum.

„KR er þannig lið að það gefst ekki upp en við vorum ólseigir og náðum að vinna. Það er mikil reynsla í okkar liði og ég held að hún hafi skilað sigrinum þegar upp er staðið. Það greip ekki um sig neinn ótti þegar við lentum undir. Við héldu bara ró okkar sem var mjög mikilvægt í þessari stöðu. Þessi sigur gefur okkur klárlega byr í seglin og eykur bara sjálfstraustið í liðinu,“ sagði Helgi Freyr en liðin mætast í undanúrslitum bikarkeppninnar á heimavelli KR þann 2. febrúar og þá má búast við hörkuleik.

„Það er stutt í bikarleikinn og það verður bara orrusta,“ sagði Helgi Freyr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert