LeBron horfði á Irving slá met

Kyrie Irving fagnar með stuðningsmönnum Cleveland á fremsta bekk.
Kyrie Irving fagnar með stuðningsmönnum Cleveland á fremsta bekk. AFP

Hefði einhver trúað því fyrirfram að einhver annar en LeBron James myndi setja vallarmet í stigaskorun hjá Cleveland Cavaliers í vetur? Jú, samherji hans Kyrie Irving gerði sér lítið fyrir í nótt og skoraði 55  stig þegar Cleveland vann Portland Trail Blazers, 99:94, í NBA-deildinni í körfuknattleik.

LeBron lék ekki með vegna tognunar í úlnlið, en sat á fremsta bekk og horfði á Irving fara gjörsamlega á kostum, nema í byrjun því fyrstu sjö skotin geiguðu. En það var bara upphitun. Hann setti liðsmet með því að skora 11 þriggja stiga körfur, hitti úr öllum 10 vítaskotum sínum, og gerði 24 af síðustu 28 stigum Cleveland í leiknum. Irving gerði 38 stig í síðasta leik og er því sjóðandi heitur þessa dagana.

LeBron James neitaði að ræða við fréttamenn eftir leikinn. „Þið eigið bara að tala við Irving. Þetta er hans kvöld," sagði stjarnan. LaMarcus Aldridge gerði 38 stig fyrir Portland.

Ekkert virðist geta stöðvað Atlanta Hawks um þessar mundir en liðið bætir félagsmet  sitt í hverjum leik í deildinni. Í nótt vann Atlanta sinn 17. sigur í röð í deildinni með því að leggja Brooklyn Nets að velli, 113:102.

Paul Millsap var einu sinni sem oftar í lykilhlutverki en hann skoraði 28 stig og tók 15 fráköst. Þetta var 31. sigur liðsins í síðustu 33 leikjunum. Joe Johnson skoraði 26 stig fyrir Brooklyn.

Carmelo Anthony skoraði 31 stig fyrir New York Knicks sem vann fátíðan sigur, 100:92 gegn Oklahoma City Thunder. Russell Westbrook gerði 40 stig fyrir Oklahoma.

Tony Parker, sem var í gær kjörinn besti körfuboltamaður Evrópu annað árið í röð, skoraði 17 stig fyrir meistara San Antonio sem unnu Charlotte, 95:86.

Úrslitin í nótt:

Cleveland - Portland 99:94
Philadelphia - Detroit 89:69
Toronto - Sacramento 119:102
Atlanta - Brooklyn 113:102
Houston - Dallas 99:94
Minnesota - Boston 110:98
New Orleans - Denver 85:93
New York - Oklahoma City 100:92
San Antonio - Charlotte 95:86
Utah - LA Clippers 89:94
Phoenix - Washington 106:98

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert