Atlanta heldur áfram að bæta metið

Paul Millsap fór fyrir liði Atlanta í nótt sem virðist …
Paul Millsap fór fyrir liði Atlanta í nótt sem virðist óstöðvandi. EPA

Atlanta Hawks hélt áfram að bæta met sitt í NBA-deildinni í körfubolta, en í nótt vann liðið sinn átjánda leik í röð þegar Portland Trail Blazers lá í valnum, 105:99.

Það var fyrst og fremst frábær fjórði leikhluti sem skóp sigurinn, en Atlanta skoraði 36 stig í honum og tryggði sér sigurinn. Paul Millsap skoraði 21 stig fyrir Atlanta en stórleikur LaMarcus Aldridge fyrir Portland dugði ekki til, en hann skoraði 37 stig. Atlanta er í efsta sæti austurdeildar en á hæla þeirra eru Toronto Raptors, sem unnu Brooklyn Nets eftir framlengdan leik, 127:122.

Þá töpuðu Golden State Warriors og Los Angeles Clippers bæði óvænt. Utah Jazz lagði Golden State, 110:100, þar sem stórleikur Steph Curry dugði skammt fyrir Golden State en hann skoraði 32 stig. Þá unnu New Orleans Pelicans lið Clippers eftir spennandi leik, 108:103.

Úrslit næturinnar:

Atlanta Hawks - Portland Trail Blazers 105:99
Boston Celtics - Houston Rockets 87:93
Brooklyn Nets - Toronto Raptors 122:127 eftir framlengingu
Cleveland Cavaliers - Sacramento Kings 101:90
Miami Heat - Dallas Mavericks 72:93
New Orleans Pelicans - LA Clippers 108:103
Philadelphia 76ers - Minnesota Timberwolves 103:94
Phoenix Suns - Chicago Bulls 99:93
Utah Jazz - Golden State Warriors 110:100

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert