„Ætlum að halda okkur uppi“

Sigtryggur Arnar Björnsson var öflugur í liði Skallagríms sem tapaði fyrir Stjörnunni, 102:97, í undanúrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik í Borgarnesi í kvöld. Botnlið Skallagríms veitti Stjörnunni harða keppni en það vantaði herslumuninn.

„Já, klárlega. Við vorum að elta allan leikinn og það er mjög erfitt á móti Stjörnunni enda eru þeir með hörkulið. Það tekur mikla orku,“ sagði Sigtryggur við mbl.is og hrósaði stuðningsmönnum Skallagríms.

„Fólk mætir sama hvernig gengur sem er algjör snilld. Það hefði verið gaman að komast í Höllina, það er stórmál. En það hafðist ekki í þetta skiptið,“ sagði Sigtryggur. Hann segir markmið Skallagríms skýrt fyrir restina af tímabilinu.

„Við ætlum að halda okkur uppi, það er bara þannig,“ sagði Sigtryggur, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert