Snæfell tapaði dýrmætum stigum - Keflvíkingar í fínni stöðu

Davon Usher Keflvíkingur skoraði 21 stig fyrir Keflavík í kvöld.
Davon Usher Keflvíkingur skoraði 21 stig fyrir Keflavík í kvöld.

Snæfell tapaði í kvöld dýrmætum stigum í baráttunni um sæti í úrslitakeppnini þegar liðið tapaði fyrir Tindastóli í Stykkishólmi 80:77 og þá unnu Keflvíkingar frábæran sigur á grönnum sínum í Grindavík 89:81.

Snæfell hefur 16 stig í deildinni og er liðið í 9. sæti og því verða Snæfellingara nú að vinna Keflavík í næstu umferð til þess að eiga von um sæti í úrslitakeppninni, en þangað fara átta efstu lið deildarinnar.

Leikurinn var þó æsispennandi og og voru Hólmarar yfir 59:58  eftir þriðja leikhluta en gestirnir í Tindastól voru sterkari á lokamínútunum og unnu nauman þriggja stiga sigur.

Stólarnir eru í 2. sæti deildarinnar með 30 stig en hjá þeim í kvöld var Myron Dempsey atkvæðamestur með 20 stig, og sex fráköst.

Hjá Snæfelli var Christopher Woods stigahæstur með 29 stig og 13 fráköst.

Keflavík jafnaði Grindavík að stigum

Grindavík tók á móti Keflavík suður með sjó en og fóru þar gestirnir úr Keflavík með sigur af hólmi 89:81 í hörkuleik sem var í járnum frá upphafi til enda.

Keflvíkingar höfðu eins stigs forystu í hálfleik 25:24 og sigu svo hægt og bítandi fram úr heimamönnum úr Grindavík í þriðja og fjórða leikhluta. 

Mestur fór munurinn í 16 stig þegar sjö mínútur voru eftir en Grnidvíkingar gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í fjögur stig þegar þrjár mínútur voru eftir en lengra komust þeir ekki.

Hjá Grindavík setti Rodney Alexander niður heil 34 stig og tók 12 fráköst en atkvæðamestur hjá Keflvíkingum var Davon Usher 21 stig og 10 fráköst.

Keflavík er í 6. sæti deildarinnar með 20 stig en liðið jafnaði Grindavík að stigum í kvöld. Grindvíkingar eru eftir tapið í 8. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert