Helgi í þægindahringnum í kvöld

Helgi Már Magnússon, KR.
Helgi Már Magnússon, KR. mbl.is/Ómar Óskarsson

Helgi Már Magnússon átti góðan leik með KR liðinu þegar liðið lagði Grindavík að velli í þriðja leik liðanna í átta liðum úrslitum Dominos deildarnnar í DHL höllinni í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 94:80 fyrir KR og komst liðið þar með áfram í undanúrslitin.

„Mér leið vel í leiknum í kvöld og það gaf mér mikla innspýtingu að hitta fyrstu skotunum. Við það jókst sjálfstraustið og maður kemst inn í sinn þægindahring. Ég grísaði svo niður nokkrum skotum í restina.“

Helgi skoraði 22 stig í leiknum í kvöld og hitti úr sex af sjö þriggja stiga skotum sínum.

„Þriggja stiga skotin detta þegar maður kemst í smá gír og þetta var að detta í kvöld og ég ákvað því að hamra járnið á meðan það var heitt.“

Helgi telur að góður varnarleikur í seinni hálfleik hafi lagt grunninn að sigri KR liðsins í kvöld.

„Við náðum að leysa vörnina betur og framkvæmdum okkar sóknaraðgerðir alveg ágætlega. Við vorum ekki nógu ákveðnir í varnarleiknum í fyrri hálfleik, en náðum að herða á klónni varnarlega í seinni hálfleik. Það varð til þess að þeir þurftu að eyða meira púðri í hverja körfu hjá sér og við gátum nýtt okkur það að þeir voru þreyttir með því að auka tempóið í sóknarleiknum hjá okkur. Við héldum þeim sem betur fer í þægilegu forskoti frá okkur allan seinni hálfleikinn og héldum sama dampi út allan leikinn og hleyptum þeim ekki að okkur sem er mjög jákvætt,“ sagði Helgi.

Munu fylgjast spenntir með

Helgi var ánægður með varnarleikinn heilt yfir í einvíginu og telur það sýna styrk varnarleiksins að hafa náð að halda góðu liði Grindavíkur undir 80 stigum alla þrjá leikina.

„Það var reyndar lítið skorað í leikjunum öllum, en samt sem áður sýnir það hversu sterkir við vorum á löngum köflum í leikjunum þremur að við höldum þeim undir 70 stigum í fyrsta leiknum og um og yfir 80 stigin í seinni leikjunum tveimur.“

Helgi telur að liðið eigi auðvelt með að aðlaga sig að þeim aðstæðum sem hver leikur býður upp og liðið geti einnig leikið á háu tempói í hröðum leikjum.

„Það sýndi sig svo í seinni hálfleik í kvöld að okkur líður líka vel þegar leikirnir verða hraðari og við getum spilað með þegar leikirnir eru spilaðir á háu tempói og stigaskorið er hátt. Við erum orðnir nokkuð góðir í því að aðlaga okkur að þeim aðstæðum sem hver andstæðingur fyrir sig býður upp á.“

Helgi segist vera spenntur fyrir undanúrslitunum og KR liðið komi klárt til leiks þar.

„Já við munum fylgjast með því svona með öðru auganu hvaða liði við munum mæta í undanúrslitunm og það verður spennandi að sjá hvaða liði við mætum. Við munum hins vegar einblína að vinna í okkar leik og halda áfram að bæta okkur og sjá til þess að við mætum klárir til leiks í undanúrslitin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert