Við spilum arfaslaka vörn

Jón Axel Guðmundsson sækir að körfu KR.
Jón Axel Guðmundsson sækir að körfu KR. mbl.is/KRISTINN INGVARSSON

Það var augljóst á Jóni Axeli Guðmundssyni að hann var gríðarlega óánægður með spilamennsku Grindavíkurliðsins í þriðja leik liðsins gegn KR í átta liða úrslitum Dominos deildarinnar í DHL höllinni í kvöld. Grindvíkingar eru aldir upp við mikla sigurhefð í körfuboltanum og það að vera sópað út úr átta liða úrslitunum er eitthvað sem leikmenn Grindavíkur eru ekki vanir.

„Í kvöld varð varnarleikurinn okkur klárlega að falli. Michael Craion er að skora hátt í 40 stig og við erum að bjóða Helga Má Magnússyni upp á allt of frí skot. Það er alveg ljóst að leikmenn eins og Craion og Helgi Már ganga bara á lagið ef að það er ekki tekið fast á þeim,“ sagði Jón Axel.

Grindavík hafði spilað firnasterka vörn í fyrstu tveimur leikjum liðsins í rimmunni á móti KR, en það var hins vegar ekki uppi á teningnum í leiknum í kvöld.

„Við erum búnir að halda KR í um það bil 70 stigum í fyrstu tveimur leikjunum og það er það sem þarf til þess að eiga möguleika á að vinna KR. Svo komum við hingað og spilum arfaslaka vörn og það er klárt að ef að þú gerir það á heimavelli KR og leyfir þeim að skora hátt í 100 stig þá er erfitt að vinna KR.“

Jón Axel segir að Grindavíkurliðið verði að læra af leiknum í kvöld að halda haus þó að á móti blási.

„Við fengum á okkur tvær tæknivillur í þriðja leikhluta sem að var ansi dýrt. Við verðum bara að læra af þessu og setja þetta í reynslubankann. Við verðum að halda haus í mótlæti og megum ekki láta dómararana fara í taugarnar á okkur. Villufjöldinn er svipaður hjá liðunum og dómararnir stóðu sig vel í kvöld og urðu ekki til þess að við töpuðum leiknum í kvöld.“

Þurfa að sýna meiri stöðugleika á næsta tímabili

Jón Axel telur að leikmenn liðsins hafi ekki verið nógu grimmir í sóknarleiknum og það auk skorts á varnarleik hafi verið munurinn á liðunum í kvöld.

„Við vorum ekki að fara nógu sterkt upp að körfunni og hættum að sækja sem lið. Kaninn okkar fékk kannski ekki þær villur sem við hefðum viljað fá, en það var okkar eigin spilamennska sem varð okkur að falli í kvöld.“

Tímabilið var kaflaskipt hjá Grindavík í ár og var spilamennska liðsins mun betri eftir áramót. Jón Axel sá jákvæða punkta á tímabilinu þrátt fyrir að vera augljóslega svekktur með árangurinn.

„Eftir að ég kom þá sýndum við ekki nægilega mikinn stöðugleika. Við spiluðum stundum frábærlega og við getum unnið hvaða lið sem er á góðum degi. Þess á milli duttum við hins vegar allt of langt niður eins og í leiknum í kvöld sem dæmi. Það er svekkjandi að hafa ekki náð lengra af því að ég veit vel hvað býr í Grindavíkurliðinu þegar við spilum á fullum krafti. Við þurfum að sýna meiri stöðugleika á næsta tímabili og gera mikið betur á næsta tímabili“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert