Vissi það vel að þetta yrði hörkurimma

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR.
Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR. Eggert Jóhannesson

Finnur Freyr Stefánsson var að vonum kampakátur með að vera kominn í undanúrslit Dominos-deildarinnar eftir þægilegan sigur á Grindavík í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitunum í kvöld. Finnur Freyr var sérstaklega sáttur með það að slá Grindavík út í þremur leikjum, þá sér í lagi í ljósi þess hve sterkt Grindavíkurliðið er.

„Það er verulega sætt að slá út gríðarlega gott lið Grindavíkur í þremur leikjum. Ég vissi það vel að þetta yrði hörkurimma. Það er okkur til hróss að klára einvígið án þess að tapa.“

Grindavíkurliðið hefur bætt sig mikið frá áramótum þá sérstaklega með tilkomu Jóns Axels Guðmundssonar og Þorleifs Ólafssonar.

„Grindavík fyrir jól og Grindavík eftir jól eru tvö ólík lið og það er skrýtið að mæta svona sterku liði Grindavíkur í átta liða úrslitum. Við það bætist svo að Þorleifur snýr til baka af fullum krafti í úrslitakeppninni sem bætir liðið enn frekar. Ég er virkilega ánægður að ná að klára þetta hérna á heimavelli.“

Finnur var ánægður með spilamennsku KR liðsins í kvöld og í rimmunni í heild sinni.

„Frammistaðan í dag var algerlega til fyrirmyndar. Ég var sérstaklega ánægður með varnarleikinn í fyrstu tveimur leikjunum í einvíginu. Mér finnst við aðeins of linir varnarlega í fyrri hálfleiknum í kvöld. Fáum á okkur 42 stig þar. Við bættum varnarleikinn í seinni hálfleikinn fyrir utan lokamínútur leiksins. Þegar við erum til í að leggja okkur fram og hjálpa hvor öðrum þá getum við spilað hörku vörn. Ef við förum hins vegar í rólega gírinn eins og í fyrri hálfleik þá getur hvaða lið sem er unnið okkur.“

Finnur gat týnt eitt og annað til sem KR liðið getur lagað fyrir leikina í undanúrslitunum.

„Það er helling sem að við getum gert betur og við fáum sem betur fer nægan tíma til þess að fara yfir þau atriði. Það tók tíma að aðlagast því að spila án Pavels, hann spilaði 22 mínútur í þessu einvígi og það sýnir styrk leikmannahópsins alls að spila jafn vel og þeir gerðu án Pavels. Við þurfum að halda áfram að bæta okkur og vera klárir í baráttunna sem bíður okkar í undanúrslitunum. Það verður verðugur andstæðingur sem að við mætum þar og við verðum að vera á tánum.

Pavel Ermolinski fékk smá bakslag í meiðslin sem hafa verið að hrjá hann að undanförnu og var ekki með í leiknum í kvöld.

„Pavel fann aftur fyrir meiðslunum í leiknum á sunnudaginn og gat því ekki verið með í kvöld. Pavel fær sem betur fer töluverðan tíma núna til þess að jafna sig og ég á ekki von á öðru en að hann verði mættur af fullum krafti í fyrsta leik í næstu rimmu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert