Dómararnir í árekstri á heiðinni

Björgvin Rúnarsson að störfum.
Björgvin Rúnarsson að störfum. mbl.is/hag

Dómararnir þrír og eftirlitsmaður KKÍ sem eiga að starfa á leik Tindastóls og Þórs frá Þorlákshöfn í úrslitakeppni Íslandsmótsins í körfuknattleik á Sauðárkrókí í kvöld voru miðjum sjö bíla árekstrinum á Holtavörðuheiði sem greint var frá á mbl.is í dag. Eru þeir ómeiddir og tóku sjálfir ákvörðun um að dæma leikinn í kvöld samkvæmt heimildum mbl.is. 

Leiknum á Króknum seinkar töluvert af þessum sökum. Átti hann að hefjast klukkan 19:15 en gæti mögulega hafist um klukkan 21 eða jafnvel síðar. Fylgst verður með gangi mála í leiknum hér á mbl.is. 

Þeir Björgvin Rúnarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson og Ísak Ernir Kristinsson annast dómgæsluna og eftirlitsmaðurinn Pétur Hrafn Sigurðsson fyrrum framkvæmdastjóri var einnig í bifreiðinni. Bifreið þeirra mun hafa numið staðar á heiðinni en þá var keyrt aftan á bifreiðina og hún skall á þann sem var fyrir framan. 

Þess ber að geta að Þórsarar voru áður komnir á Sauðárkrók og var færðin þá mun betri. Þeir bíða því eftir dómurunum, rétt eins og Stólarnir. 

Sjö bíla árekstur á Holtavörðuheiði 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert