Haukar héldu lífi í einvíginu

Kári Jónsson sækir að körfu Keflvíkinga í kvöld.
Kári Jónsson sækir að körfu Keflvíkinga í kvöld. mbl.is/Golli

Haukar héldu lífi í baráttunni um sæti í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik með sigri á Keflvíkingum, 100:88, þegar liðin mættust á Ásvöllum í kvöld. Haukar voru með bakið upp við vegg fyrir leikinn því tap hefði sent þá í sumarfrí. Staðan er nú 2:1 fyrir Keflavík.

Það var því allt undir fyrir heimamenn sem urðu að sækja til sigurs. Eftir rólega byrjun frá báðum liðum vöknuðu Haukarnir hins vegar og það kveikti vel í þeim að skora níu stig í röð um miðjan fyrsta leikhluta, en að honum loknum voru þeir tíu stigum yfir, 30:20.

Haukarnir héldu Keflvíkingum átta til tíu stigum frá sér stóran part annars leikhluta, en reynsla Keflvíkinga vó þungt. Þeir skoruðu tíu stig í röð undir lok leikhlutans og minnkuðu muninn niður í tvö stig, 47:45, og þannig var staðan í hálfleik. Gríðarleg spenna.

Það var því fróðlegt að sjá hvernig heimamenn mættu því mótlæti eftir hlé. Þeir komu einbeittir til leiks og náðu yfirhöndinni á ný eftir því sem leið á leikhlutann. 11:2 kafli þeirra var dýrmætur auk þess sem vörnin fór að smella betur, og fyrir síðasta leikhlutann voru þeir fimm stigum yfir, 70:65.

Haukarnir héldu einbeitingu í fjórða hluta og misstu ekki kjarkinn. Keflvíkingar fóru að hitta illa sem varð þeim dýrt á meðan stemningin var með heimamönnum. Gestirnir reyndu árás undir lokin en Haukar héldu haus með Hauk Óskarsson fremstan í flokki. Lokatölur 100:88 og staðan í einvíginu nú 2:1 fyrir Keflvíkinga. Liðin mætast aftur í Keflavík á mánudagskvöldið.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is sem sjá má hér að neðan, en nánar verður fjallað um hann í Morgunblaðinu á morgun.

40. Leik lokið, lokatölur 100:88. Þessi sigur var lífsnauðsynlegur fyrir Hauka, sem fara ekki í sumarfrí strax!

40. 97:85 - Haukarnir eru að sigla þessu þægilega heim. Keflvíkingar brjóta, enda vítalínan ekki besti vinur heimamanna. Usher setur flottan þrist en það er of seint. 

39. 93:80 - Haukur er búinn að vera hreint út sagt magnaður! Ekki allir með taugar í að setja svona bull fallegan þrist á þessum tímapunkti!

39. 90:77 - Francis hefur betur í baráttunni við Damon enn einu sinni og munurinn nú þrettán stig. Mega Haukar fara að fagna? Ekki strax!

38. 88:77 - Valur Orri setur geggjaðan þrist og heldur þessu opnu, en Francis svarar. Tæpar þrjár mínútur eftir, sem gætu orðið ansi langar!

36. 84:72 - Frábær kafli hjá Haukum og Keflvíkingar taka leikhlé. Ég er ekki hissa. Tólf stiga munur núna. Haukur hefur verið gjörsamlega frábær, kominn með tuttugu stig. 

35. 82:72 - Francis og Kári setja körfur fyrir Hauka en menn eru orðnir ískaldir hjá Keflvíkingum. Usher er að reyna en virðist varla hafa trú á skotunum sínum sjálfur. Þröstur Leó er að stíga upp.

33.  78:70 - Þessi er mikilvægur! Davíð Páll kemur Keflvíkingum á kortið á ný með þrist, en skotnýting þeirra undanfarið hefur ekki verið nógu góð. Vörnin er þó öll að koma til en menn eru of ragir í sókninni. 

32. 78:67 - Haukur undirstrikar stjörnuleik sinn hér í kvöld með mögnuðum þrist. Í kjölfarið setur Helgi Björn niður körfu góða og víti að auki. Munurinn ellefu stig og meðbyrinn er Hauka!

30. Þriðja leikhluta lokið, staðan er 70:65. Haukarnir tóku vel við sér þegar leið á leikhlutann og skoruðu meðal annars ellefu stig gegn tveimur. Fimm stig skilja liðin að fyrir lokabaráttuna, sem verður án efa mögnuð. Ekki mundi ég vilja fara í sumarfrí í þessari veðráttu og Haukarnir taka eflaust undir það!

Hjá þeim eru Haukur og Alex Francis báðir með fimmtán stig, en Emil þar næstur með fjórtán. Hjá Keflavík er Damon enn á toppnum með sextán stig og Usher með þrettán.

28. 69:61 - VÁVÁ, þvílíkir taktar hjá Helga Birni. Áhorfendur kunna að meta svona fléttu. Þröstur Leó svarar hinum megin en þá skorar Helgi bara aftur!

27. 65:59 - Haukarnir eru að taka við sér í vörninni líka. Francis var hins vegar að klúðra tveimur vítum sem einfaldlega má ekki. En vörnin er að smella sem mun skipta gríðarlegu máli. 11:2 kafli hjá þeim núna.

26. 61:57 - Frábær kafli hjá Haukum núna. Haukur setti niður tvö víti, sniðskot og Emil þrist. Sjö stig í röð.

24. 54:57 - Þvílík reynsla þarna! Francis keyrði á körfuna með Damon í sér, og gamli maðurinn féll með tilfallandi hljóðum. Fiskun eins og hún gerist best!

24. 54:57 - Þvílík skemmtun núna! Eftir að Keflvíkingarnir jöfnuðu metin setti Arnar niður þrist og kom þeim yfir, en Kári svaraði með öðrum slíkum og jafnaði á ný....EN! Damon með þrist. Þvílík veisla!!

22. 51:51 - Usher hefur verið spakur í kvöld en hann var að henda í monster þrist og minnir heldur betur á sig. Á svo air-ball í næstu sókn en Damon hirðir það upp undir körfunni og jafnar metin!! 

21. 50:47 - Ég var að velta fyrir mér í hálfleiknum hvernig Haukarnir myndu bregðast við þessum 10:0 kafla. Kristinn var að henda í þrist fyrir þá sem kannski svarar þeirri spurningu! Damon setur svo tvö víti.

20. Hálfleikur, staðan er 47:45. Sterkt áhlaup Keflvíkinga hérna undir lokin - tíu stig frá þeim í röð! Haukarnir klikkuðu á tveimur þristum og Usher lokar hálfleiknum með því að minnka muninn niður í tvö stig! Alvöru leikur hérna!

Hjá heimamönnum er Francis með tólf stig og sex fráköst. Haukur er með tíu stig og Emil níu. Hjá Keflvíkingum er jaxlinn Damon með tólf stig og þeir Gunnar Einars og Usher með níu.

19. 47:37 - Emil var að fá sína þriðju villu hjá Haukum. Það er dýrt. Níu stig frá honum og tíu frá Hauki hafa létt undir með Francis, sem er með tólf. Liðsheildin að skila hjá Haukum.

17. 47:35 - Tvö víti í súginn hjá Hjálmari. Dýrt fyrir heimamenn, sem voru skelfilegir á vítalínunni í síðasta leik. Góð vörn hjá Keflvíkingum núna og Haukar eru neyddir í erfið skot. Damon fær körfu góða en missir vítið...Já sko! Haukur svarar með tveimur þristum fyrir Hauka og bætir í fyrir þá á ný.

15. 41:31 - Þetta mega Haukarnir ekki. Damon hefur aldrei verið svona frír á ævinni, gat beðið um boltann hinn rólegasti og hent svo í þrist. Haukarnir taka leikhlé, en þeir eru að ná að hanga ágætlega á þessu tíu stiga forskoti sínu.

14. 39:28 - Þessir þristar frá Gunna Einars eru verðmætari en krónan fyrir Keflvíkinga. Þriðji hjá honum núna og þeir hafa verið hver öðrum glæsilegri. Í kjölfarið klikkar Kári á þrist en hann bætir það upp með mögnuðu skoti með tvo menn í sér. Keflvíkingar kalla Damon og Usher aftur til leiks.

12. 34:23 - Francis er hins vegar ólíkindatól og var ekki lengi að snúa þá alla af sér þegar þeir mættu í næstu sókn. Í kjölfarið kastaði Reggie Dupree boltanum bara útaf hjá Keflvíkingum. Jújú, leyfum Haukunum bara að vera í sókn. Emil var fljótur að þakka fyrir það!

11. 30:23 - Gunni Einars með annan svakalegan þrist. Í kjölfarið klikkar Sigurður Einars hinum megin. Hann vildi ekki vera minni maður. Frábær vörn hjá Keflvíkingum núna, voru mættir þrír á Francis undir körfunni. 

10. Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 30:20. Það tók Haukana smá stund að komast í gang en síðan þá hefur einbeitingin tekið yfir. Níu stiga kafli þeirra um miðbik leikhlutans var dýrmætur og kveikti í mönnum. Alex Francis er þeirra stigahæstur með níu stig en hjá gestunum er Damon með sex.

9. 27:17 - Þvílíkt spil hjá heimamönnum, ef ég talaði um einhvern skrekk í þeim í byrjun þá er hann löngu farinn, sennilega langt kominn í Kópavoginn bara. Haukur með sendingu nánast í gegnum alla vörnina þar sem Kári vissi nákvæmlega hvar hann ætti að vera.

8. 25:15 - Menn voru rétt að skríða inn á völlinn aftur eftir leikhlé þegar Gunnar Einars hendir í þrist. Usher svo með svaka blokkeringu á Emil. Mikil skemmtun!.....nei heyrðu, maður hefur varla undan hérna. Kristinn Marinós að henda í þrist og kveikir í netinu, stúkunni og örugglega einhverju fleiru í leiðinni!!

7. 20:12 - VÁ! Þetta var svakalegt! Francis fer illa með Damon í annað skiptið á stuttum tíma og hendir í eina troðslu fyrir áhorfendur. Frábær kafli Hauka núna.....sem verður enn betri! Emil hendir í þrist og Keflvíkingar eru fljótir að taka leikhlé. Níu stig heimamanna í röð.

6. 13:12 - Og við höfum fyrsta þrist kvöldsins! Haukur Óskars sullar honum niður fyrir heimamenn. Svo treður Francis í eina troðslu eftir að hafa snúið á Damon - sem hins vegar svarar að bragði. Það verður gaman að fylgjast með þeirra baráttu í kvöld.

4. 5:8 - Þetta virðist svo auðvelt fyrir Usher, létt flétta og ofaní. Ekkert að flækja þetta. Keflvíkingar ná yfirhöndinni hér strax í upphafi en það virðist vera smá skjálfti í Haukamönnum. Skiljanlega kannski.

2. 3:6 - Karfa góð og víti niður hjá Francis en Damon svarar með góðu sniðskoti hinum megin og setur annað strax í kjölfarið.

1. Leikurinn er hafinn. Og það eru Haukarnir sem taka uppkastið.

0. Nú er verið að kynna liðin, og Haukarnir fá sína reglulegu ljósasýningu þegar þeir hlaupa inn á völlinn. Það væri gaman að vita hvað fer í gegnum huga þeirra hérna fyrir leikinn, miðað við hvað er undir. 

0. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Haukarnir taka á Davon Usher í kvöld, en hann skoraði síðustu sextán stig Keflvíkinga í tveggja stiga sigrinum á mánudagskvöld. Gríðarlega mikilvægur. 

0. Neinei, ég tek þetta til baka. Guðmundur er ekkert með í kvöld eins og ég sagði áðan - það hefði verið óvænt. Það er búið að lagfæra það á skýrslunni núna!

0. Liðin eru farin að hita upp hér á Ásvöllum, úti eru menn að grilla ofan í áhorfendur sem eru þó ekki margir mættir. Íslendingar, við þekkjum þá. 
Það eru gleðifréttir fyrir Keflvíkinga en Guðmundur Jónsson er á skýrslu hjá þeim í kvöld. Óvíst var hvort hann gæti tekið þátt vegna meiðsla í baki sem hélt honum meðal annars frá öðrum leik liðanna á mánudagskvöld.

0. Gestirnir úr bítlabænum þurfa einn sigur í viðbót til að komast í undanúrslit, og það gæti gerst í kvöld. Leikirnir hafa verið með eindæmum jafnir og einungis sjö stig skilja liðin að á þessum 80 mínútum sem spilaðar hafa verið. Fyrsti leikurinn fór 86:79 eftir framlengingu fyrir viku síðan og leikur tvö 84:82 í Keflavík á mánudagskvöld.

0. Velkomin með mbl.is hingað á Ásvelli í Hafnarfirði. Framundan er fantagóður körfubolti á fantafínu föstudagskvöldi og eins og við vitum þá er um allt eða ekkert að ræða fyrir heimamenn í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert