Haukar knúðu fram oddaleik

Kári Jónsson, Haukum með boltann í kvöld.
Kári Jónsson, Haukum með boltann í kvöld. Mynd/Skúli B. Sigurðsson

Haukar jöfnuðu í kvöld einvígi sitt við Keflavík í átta liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik með sjö stiga sigri á Keflavík suður með sjó 80:73. Staðan í einvíginu er því 2:2 og því verður háður oddaleikur um það hvort liðið fer í undanúrslitin en sá leikur fer fram á fimmtudag. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

4. leikhluta lokið.

Lítið var skorað í upphafi loka leikhlutans og Keflvíkingar í raun í basli með að koma knettinum niður og hægt og bítandi voru Haukar farnir að kroppa niður muninn sem Keflvíkingar höfðu komið sér í. Þristur frá Kristinn Marinóssyni þegar 5 mínútur voru til loka leiks settu leikinn í járn og staðan 65:64. Í stöðunni 67:67 höfðu Keflvíkingar aðeins skorað 5 stig í leikhlutanum þegar Gunnar Einarsson náði að hnoða í þrist fyrir þá bláklæddu en nú hafði stemmningin snúist til Haukanna og stuðningsmenn þeirra voru vel með á nótunum.  Haukar voru komnir aftur inní leikinn með látum og síðustu mínúturnar skera úr um leikinn.  Haukar höfðu fyrr í fjórðungnum sett saman svæðisvörn sem Keflvíkingar vitust vera í mesta basli með að leysa. Haukarnir voru í gírnum þetta kvöldið. Settu niður stóru skotin þegar á þurfti og það mun verða oddaleikur í þessari seríu.  73:80 lokatölur leiksins. 

3. leikhluta lokið.

Staðan er 62:55. Keflvíkingar héldu áfram að hamra heitt stálið og voru þegar um 2 mínútur voru til loka leikhlutans komnir með 10 stiga forskot 62:52. Haukar eru að gera sig seka um of mikið af smáræðis mistökum og það er ekki hægt í úrslitakeppninni og ennþá síður í Keflavíkinni. Það skildi þó aldrei afskrifa þetta Haukalið. Innan þeirra raða eru menn sem geta hitnað á örskotsstundu en eins og staðan er núna lítur þetta ekki vel út fyrir þá rauðklæddu.  Staðan er 62:55 sem er ekki mikið í körfuboltanum en Keflvíkingar eru líklegri miðað við tempó leiksins og stemmningu. 

2. leikhluta lokið

Staðan er 44:37 fyrir Keflavík. Annar leikhluti hófst þannig séð eins og sá fyrsti. Lítið skorað og lágstemmdur sóknarleikur þangað til að Davon Usher reif sig upp og „plakat-aði“ Emil Baraja hjá Haukum með traffík troðslu. Virkilega huggulegt og Ívar Ásgrímsson sá sér ekki annað fært en að biðja um leikhlé og drepa niður strax þá stemmningu sem var að myndast hjá Keflvíkingum. Damon Johnson þótti hinsvegar lítið til þessa leikhlés komið og setti strax eftir það niður þrist og Keflvíkingar allt í einu komnir í þriggja stiga forystu, 27:24.  Usher var ekki hættur og setti snögg sjö næstu stig Keflvíkinga. Staðan allt í einu orðin 35:27. Keflvíkingar hafa náð frumkvæðinu í leiknum og leiða 44:37 nú í hálfleik.  A leið til búningsherbergja virtust leikmenn liðanna eiga eitthvað útkljáð en dómarar urðu snöggir til og stöðvuðu það upphlaup. 

1. leikhluta er lokið.

Staðan er 22:20 fyrir Hauka. Það lítur allt út fyrir að bæði lið séu með á hreinu hvað er undir hér í kvöld.  Leikurinn fer fjörlega af stað og liðin skipast á að skora þó svo að titringur hafi verið í sóknarleik beggja liða á upphafsmínútunum. Guðmundur Jónsson er mættur aftur til leiks fyrir Keflvíkinga eftir að hafa hvílt síðustu tvo leiki.  Sigurður Ingimundarson er að fara djúpt á bekk sinn og nú þegar hafa 10 leikmenn komið við sögu hjá honum í leiknum.  En leikurinn jafn og aðeins tvö stig skilja liðin eftir fyrsta leikhluta.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Leikurinn getur ekki hafist á réttum tíma en starfsmaður íþróttahússins vinnur að því að lagfæra skotklukkuna.

0. Keflvíkingar eru 2:1 yfir í einvígi liðanna og með sigri í kvöld tryggja þeir sér sæti í undanúrslitunum.

0. Liðin áttust við að Ásvöllum þar sem Haukar höfðu betur, 100:88, en Keflvíkingar unnu tvo fyrstu leikina 86:79 og 84:82.

Davon Usher, Keflavík með skot í leiknum í kvöld.
Davon Usher, Keflavík með skot í leiknum í kvöld. Mynd/Skúli B. Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert