Æskuvinirnir í aðalhlutverkum

DeMar DeRozan gat brosað breitt í leikslok í nótt.
DeMar DeRozan gat brosað breitt í leikslok í nótt. AFP

Vinirnir DeMar DeRozan og James Harden háðu mikið einvígi í nótt þegar lið þeirra, Toronto Raptors og Houston Rockets, mættust í hörkuspennandi leik í NBA-deildinni í körfuknattleik í Kanada.

Þeir ólust upp á sömu slóðum í Los Angeles og hafa verið félagar frá barnæsku og tengsl milli fjölskyldnanna eru mikil. Harden hefur verið meira áberandi, sérstaklega í vetur, en í nótt var það DeRozan sem skyggði á vin sinn. Toronto vann leikinn, 99:96, en liðin eru í baráttu um toppsætin austan- og vestanmegin og gætu hæglega mæst á seinni stigum úrslitakeppninnar í vor.

DeRozan skoraði 42 stig, sem er persónulegt met hjá honum í deildinni og tók 11 fráköst, þar sem hann jafnaði sitt besta. Harden skoraði 31 stig fyrir Houston, sem hafði unnið fjóra leiki í röð. Enn einu sinni tapaði liðið í Toronto en þangað norður fyrir kanadísku landamærin hefur Houston ekki sótt sigur í átta ár. Houston er í þriðja sæti Vesturdeildar með 50 sigra en Toronto er í fjórða sæti Austurdeildar með 3 sigra. 

„Þetta er gaman því við höfum spilað hvor gegn öðrum síðan við vorum krakkar. Hann hefur alltaf verið einn nánasti vinur minn í deildinni. Fjölskyldur okkar eru nánar svo þetta er allaf sérstakt. Við munum tala um þetta eftir 20 til 30 ár og rifja upp góðar minningar," sagði DeRozan við fréttamenn eftir leikinn.

Avery Bradley skoraði 30 stig fyrir Boston Celtics sem vann Charlotte Hornets á útivelli, 116:104, í mikilvægum leik í slagnum um að komast í úrslitakeppnina austanmegin en þar er Boston nú í hinu dýrmæta 8. sæti en Charlotte þremur sætum neðar þó litlu muni.

Úrslitin í nótt:

Charlotte - Boston 104:116
Philadelphia - LA Lakers 111:113 - eftir framlengingu
Atlanta - Milwaukee 101:88
Toronto - Houston 99:96
Memphis - Sacramento 97:83
Minnesota - Utah 84:104
Portland - Phoenix 109:86

Í Austurdeild eru Atlanta, Cleveland, Chicago, Toronto og Washington komin áfram. Milwaukee, Miami, Boston, Brooklyn, Indiana og Charlotte eru öll í hnífjöfnum slag um þrjú síðustu sætin.

Í Vesturdeild eru Golden State, Memphis, Houston, Portland og LA Clippers komin áfram. San Antonio og Dallas eru nánast örugg og Oklahoma City er með þriggja sigra forskot á New Orleans í einvígi liðanna um áttunda og síðasta sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert