Benedikt hefur ekkert heyrt

Benedikt Guðmundsson fylgist með Þórsliðinu í leik.
Benedikt Guðmundsson fylgist með Þórsliðinu í leik. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Óvíst er hvort körfuknattleiksþjálfarinn Benedikt Guðmundsson verði áfram þjálfari úrvalsdeildarliðs karla hjá Þór í Þorlákshöfn en hann hefur stjórnað því undanfarin fimm ár, ásamt því að þjálfa yngri flokka hjá félaginu.

Benedikt kom Þórsliðinu upp í úrvalsdeildina á fyrsta ári og þar hefur það náð góðum árangri undir hans stjórn. Lengst náði liðið tímabilið 2011-2012 en þá lék Þór til úrslita við Grindavík um Íslandsmeistaratitilinn og beið lægri hlut.

Í vetur höfnuðu Þórsarar í sjöunda sæti og töpuðu 3:0 fyrir Tindastóli í átta liða úrslitunum á dögunum.

Benedikt samdi fyrst við Þór til þriggja ára og síðan til tveggja ára í viðbót, en seinni samningurinn rennur út í þessum mánuði og hann sagði við mbl.is í dag að hann vissi ekkert um hvað tæki við.

„Þetta er eiginlega galopið og í óvissu því ég hef ekkert heyrt í forráðamönnum félagsins ennþá. Það  verður bara að koma í ljós hvað gerist á næstu dögum eða vikum. Ég er búinn að eiga heima hér í Þorlákshöfn í fimm ár og þetta hefur verið frábær tími, en nú eru málin ekki í mínum höndum. Ég bíð bara þess sem verða vill og mun þjálfa þar sem óskað verður eftir kröftum mínum," sagði Benedikt Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert