Erfitt að kyngja þessu tapi

mbl.is / Eva Björk Ægisdóttir

Logi Gunnarsson leikmaður Njarðvíkur var gríðarlega sár eftir dramatískt tap liðsins gegn KR í oddaleik liðanna í undanúrslitum Dominos deildar karla í körfuknattleik í DHL höllinni í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 102:94 fyrir KR eftir tvíframlengdan leik.  

„Það er erfitt að kyngja því að hafa tapað þessum leik. Við spiluðum frábærlega hér í kvöld og gerðum vel í að koma til baka eftir erfiða byrjun. Þegar maður er kominn með aðra höndina í úrslitaeinvígið þá er svakalega erfitt að taka því að hafa tapað þessum leik. Þeir eru með gott lið og gerðu vel í því að koma til baka í seinni hálfleik eins og við höfðum gert í fyrri hálfleik.“

Leikur tveggja frábærra liða

Leikurinn í kvöld var leikur tveggja frábærra liða þar sem annað liðið þurfti að lúta í gras. Loga fannst Njarðvík allt eins eiga skilið að komast í úrslitaeinvígið.

„Við áttum alveg eins skilið eins og þeir að spila í úrslitum. Ég tel okkur alveg á pari við KR liðið getulega séð. Að vera næstum því búinn að leggja þetta sterka lið KR sem fóru næstum því taplausir í gegnum mótið er frábært afrek. En þegar þú ert kominn svona langt og ert svona nálægt sigrinum þá er það hrikalega svekkjandi að komast ekki alla leið.“

Njarðvíkurliðið náði sér ekki á strik í fyrsta leikhluta og KR-ingar hófu leikinn af miklum krafti. Logi var ánægður með Njarðvíkurhjartað sem kom liðinu aftur inn í leikinn. 

Erum komnir á stall á meðal þriggja bestu liða á landinu

„Við erum með marga unga stráka sem fá mikla reynslu af þessari rimmu. Við töpuðum í oddaleik gegn Grindavík í fyrra. Við vorum líka komnir í holu í þessu einvígi fyrir fjórða leikinn í Ljónagryfjunni. Við sýndum það að við gefumst aldrei upp bæði í síðasta leik og í öðrum leikhluta hér í kvöld. Það sýndi stóran karakter að koma til baka á móti svona sterku liði og vera ansi nálægt því að vinna leikinn.“

„Við erum komnir á þann stall að vera eitt af þremur bestu liðunum á landinu. Við erum á pari við Tindastól og KR og framtíðin er björt í Njarðvík. Við erum súrir og svekktir að tapa hér í kvöld, en við erum sáttir við þann stað sem liðið er komið á og nú er bara að byggja ofan á það á næsta tímabili.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert