Mögnuð stemming í kvöld

Darri Hilmarsson og Logi Gunnarsson
Darri Hilmarsson og Logi Gunnarsson mbl.is / Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Darri Hilmarsson leikmaður KR var kampakátur eftir sigur KR-ingar í æsispennandi leik við Njarðvík í undanúrslitum Dominos deildar karla í körfuknattleik í DHL deildinni í kvöld. Lokatölur urðu 102:94 fyrir KR eftir tvíframlengdan leik. 

„Þetta var rosalegur fyrir körfuboltann í heild sinni. Umgjörðin hér var mögnuð og gríðarlega gaman að sjá þann fjölda sem mætti á leikinn hér í kvöld. Þetta var svakalegur leikur milli tveggja góðra liða og sem betur fer endaði sigurinn okkar megin.“

KR-ingar hófu leikinn af gríðarlegum krafti og baráttan í liðinu var til fyrirmyndar sem skilaði sér svo í góðum sóknarleik.

„Það var rosalega mikil ákefð hjá okkur í upphafi leiksins. Við spiluðum ekki jafn ákafa vörn í öðrum leikhluta og skotin voru ekki að detta niður. Það kom þeim inn í leikinn og þar eftir var bara allt í járnum. Það var jafnt á öllum tölum eftir það og sem betur vorum við yfir þegar leiknum lauk.“

Stephen Bonneau sá besti sem ég hef dekkað

Darri Hilmarsson er feykilega góður varnarmaður og hefur dekkað marga góða körfuboltamenn í gegnum tíðina. Hann er á því að Stephen Bonneau sé sá besti sem hann hefur spilað á móti.

„Ég held að hann sé besti íþróttamaður sem að ég hef spilað á móti. Ég man ekki eftir svona snöggum leikmanni með svona mikinn sprengikraft. Hann er með fáránlega boltatækni og getur skotið á svakalegu tempói. Mér fannst ég gera allt sem í mínu valdi stóð til að verjast honum og hélt að það myndi duga. Hann fann samt alltaf leið að körfunni og er magnaður íþróttamaður.“

Verðum að koma okkur á jörðina fyrir leikinn á mánudaginn 

„Nú verðum við að koma okkur á jörðina fyrir fyrsta leik í úrslitaeinvíginu við Tindastól sem er eftir tvo daga. Við erum eðlilega glaðir eftir þennan leik hér í kvöld, en nú verðum við að fara að undirbúa okkur eins vel og hægt er fyrir leikinn á mánudaginn. Serían við Tindastól verður örugglega álíka rosaleg og þessi sem að við vorum í á móti Njarðvík. Vonandi náum við að klára hana líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert